Loðnan þrefalt verðmætari en árið 2018

Loðnuvertíðin, sem nú er lokið, var kærkomin vítamínsprauta inn í íslenskt efnahagslíf eftir doða COVID vetrarins. Þótt útgefinn kvóti hafi verið með þeim minnstu í sögunni er verðmæti hans fyrir þjóðarbúið þrefalt á við árið 2018 þegar síðast var veidd loðna við Ísland.

Árið 2018 veiddu íslensk fiskiskip 186 þúsund tonn af loðnu. Útflutningsverðmæti loðnuafurða það ár nam 17,8 milljörðum króna. Í ár veiddu íslensk skip rúm 70 þúsund tonn eða hátt í þrefalt minna magn en nýverið var haft eftir sjávarútvegsráðherra að útflutningsverðmætið verði hátt í 20 milljarðar króna. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, metur það hinsvegar, í samtali við mbl.is, á 22 til 25 milljarða króna. Segja má að tölur Gunnþórs séu raunsærri þar sem hann tekur með þau 10 þúsund tonn sem Norðmenn lönduðu hérlendis. En hvernig sem á það er litið, og að teknu tilliti til gengisvísitölunnar, er um þreföldun að ræða hvað verð fyrir magn ræðir.


Ein breyting á hagtölum vekur einnig athygli. Í febrúar minnkaði atvinnuleysi á milli mánaða. Að vísu ekki um nema 0,2% en slíkt hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Atvinnuleysi eykst nær ætíð frá janúar til febrúar. Þegar Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunnar, var spurð um ástæður þessarar óvenjulegu þróunar svaraði hún í samtali við ruv.is: „Það er byrjuð loðnuvertíð í fyrsta lagi...“

Sérstök staða undanfarin ár

Loðnuveiðar Íslendinga hafa farið sífellt minnkandi frá því þær náðu toppnum árið 1997 þegar veidd voru 1,3 milljónir tonna. Til gamans má geta þess að ef það magn væri selt á heimsmarkaðsverðum í dag væri það réttu megin við 400 milljarða króna að verðmæti.

Á árabilinu 2016 til 2018, þegar loðnuveiðar stöðvuðust, voru veidd á bilinu 101 til 197 þúsund tonn á ári. Árið 2019 var fyrsta árið með engum loðnuveiðum hérlendis frá því þær hófust við landið árið 1963.

Loðna hefur lengi verið einn mikilvægasti fiskistofn Íslands hvað útflutningsverðmæti varðar. Raunar kom fram í Hagsjá Landsbankans fyrr í vetur að á árabilinu 2012-2018 var útflutningsverðmæti loðnu það annað mesta á eftir útflutningsverðmæti þorsks.

Nálgast að vera á pari við þorskinn

Þegar kemur að innbyrðis viðskiptum útgerða með kvóta sést glögglega að þetta verðmæti loðnu endurspeglast á markaði. Frétt sem birtist nokkru eftir að loðnuveiðar hófust um að óheimilt væri að skipta á aflaheimildum í þorski fyrir loðnu innan krókaaflamarkskerfisins vakti athygli. Landssamband smábátaeigenda hafði vakið athygli á viðskiptum af þessu tagi sem Fiskistofa hafði raunar samþykkt. Landssambandið var að furða sig á því hvernig krókaaflamarksbátur gæti gert út á loðnu þar sem á honum mætti bara nota línu og handfæri. Svona viðskipti voru bönnuð í framhaldinu.

Það sem vakti meiri athygli í fréttinni var verðið sem fékkst fyrir loðnuna eða 732 tonn af þorski fyrir 1.066 tonn af loðnu. Þetta er stuðull upp á tæplega 0,7 þorskígildiskíló (þíg). Árið 2018 var þessi stuðull 0,13. Verðmæti loðnukvóta á markaði hefur sem sagt meira en fimmfaldast frá fyrrgreindum tíma. Viðmiðunarverð fyrir þorsk á markaði í síðasta mánuði var 271,3 kr/kg. Því hefur kíló af óveiddri loðnu kostað um 200 kr. á þessari vertíð.

Fyrrgreindur stuðull var síðan staðfestur á tilboðsmarkaði sem Fiskistofa efndi til í síðasta mánuði. Í boði voru rúmlega 2.600 tonn af loðnu í skiptum fyrir þorsk. Alls bárust 29 tilboð í loðnuna og var meðalverðið rúmlega 0,7 þíg. Það voru raunar Jón Kjartansson SU 111 og Aðalsteinn Jónsson SU 11 sem buðu best og fengu þessa loðnu.

Markaðsþurrð

Ástæðan fyrir himinháum verðum fyrir loðnuafurðir þessa stundina er markaðsþurrð. Það er ekki bara að loðnuveiðar við Ísland hafi legið niðri frá 2018 heldur hefur slíkt hið sama gerst í Barentshafi. Loðnuveiðar Norðmanna og Rússa í Barentshafi hafa yfirleitt fylgt sveiflum í veiðum hérlendis.

Annað sem veldur verðhækkunum er aukin samkeppni á markaðnum, einkum hrognamarkaðnum, þar sem Kínverjar hafa sýnt þessari afurð síaukinn áhuga á síðustu árum.

Í fyrrgreindri Hagsjá Landsbankans kemur fram að það eru Norðmenn sem hafa verið stærstu kaupendur að loðnuafurðum okkar en um 20% af öllum loðnuútflutningi á árabilinu 2016-2019 fór þangað. Allur útflutningur til Noregs á síðustu árum hefur verið í formi mjöls en það þykir mjög gott fóður í fiskeldi.

Næststærsti kaupandi loðnuafurða á síðustu árum hefur verið Japan en þangað hefur megnið af hrognunum verið flutt í gegnum tíðina. Um 12,4% af útflutningsverðmæti loðnu á síðustu árum hefur farið til Japans.

Kínverjar eru svo komnir í þriðja sætið með um 11% en þeir kaupa svipaðar afurðir og Japanir.

Skiptaverð nær þrefaldast

Sjómenn njóta góðs af því að markaðir voru orðnir þyrstir í loðnu og þá sérstaklega hrogn. Skiptaverð til þeirra hefur nær þrefaldast ef miðað er við verðið árið 2018.

Í frétt á vefsíðunni auðlindin.is í febrúar 2018 kemur fram að íslensku loðnuskipin voru þá að fá 42 krónur fyrir kílóið. Fréttin fjallaði raunar um að færeysku skipin voru að fá mun hærra verð í Færeyjum.

Austurglugginn hefur heimildir fyrir því að algengt verð til íslensku skipana í ár hafi verið 132 krónur fyrir kíló af hrognaloðnu sem er uppistaða aflans. Það verð er þó sennilega eitthvað hærra hjá austfirsku vinnslunum.

Ef tekið er tillit til gengisvísitölunnar væri verðið árið 2018 rúmlega 50 krónur í dag. Því er um hátt í þrefalda hækkun að ræða til sjómanna á milli þessara tveggja vertíða.

Norðmenn leita í síldarhrogn

Loðnuveiðistoppið og síðan hinn litli loðnukvóti í ár hefur haft þær athyglisverðu hliðarafleiðingar að verð á síld hefur rokið upp í Noregi, það er að segja ef hún er hrognafyllt. Það eru einkum Japanir og Kínverjar sem kaupa þessa síld.

Í nýlegri frétt á sjávarfréttasíðunni undercurrentnews kemur fram að vorgotssíld með góða hrognafyllingu selst nú á tæpar 8 norskar krónur, eða um 120 krónur kílóið við löndun í Noregi. Á sama tíma í fyrra var verðið tæpar 6 norskar krónur.

Fram kemur í fréttinni að Norðmenn hafi ekki alveg náð tökum á því að hámarka arðinn af þessum veiðum. Í sumum köstum fá þeir síld með allt að 20% hrognafyllingu en í öðrum er síldin einfaldlega búin að hrygna. En hvað sem því líður væri kannski skynsamlegt fyrir íslenskar útgerðir að kanna veiðar á hrognafullri síld í framtíðinni.

Fréttaskýring þessi birtist fyrst í blaðinu Austurglugginn þann 18.3.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.