Lítið hægt að segja um stöðuna fyrr en birtir á morgun

Ekki verður hægt að meta umfang eða skemmdir skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð í dag fyrr en í birtingu í fyrramálið. Bæjarstjóri Múlaþings segir aðgerðir hafa fengið vel en á næstu dögum skýrist hvaða framkvæmdir þurfi að fara í við hreinsunarstarfið.

„Við vitum að umfangið er töluvert en það verður ekki hægt að taka það út fyrr en birtir og verður hægt að fara inn á svæðið.

Það fer eftir mati sérfræðinga Veðurstofunnar hvenær það verður. Við vonumst síðan að hægt verði að opna götur bæjarins í þrepum, hvort það verði á morgun eða sunnudaginn á eftir að koma í ljós,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings.

Ákvörðun var tekin um að rýma Seyðisfjarðarkaupstað algjörlega í dag og var opnuð fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum. Enginn gistir þar í nótt heldur eru Seyðfirðingar komnir í gistingu.

„Þetta tókst vel. Sumir gerðu ráðstafanir sjálfir en við höfðum samband við hótel og gistihúsaeigendur og það var búið að útvega það mörgum rými að það tókst að koma öllum fyrir. Í raun hefur þetta gengið vel í dag. Viðbragðsaðilar hafa allir staðið sig vel og framlag íbúanna er aðdáunarvert.“

Brá við fréttirnar

Björn var uppi á Egilsstöðum í dag þegar honum bárust fréttir af stóru skriðunni. „Ég var á Seyðisfirði í gær og fyrradag. Ég ætlaði niður eftir í dag en hætti við þegar í ljós kom að ekki væri hægt að fara í neinar framkvæmdir.

Úrkoman í gær var það mikil að maður óttaðist að ýmislegt gæti gerst. Í morgun vonaði maður að það yrði ekki meira en það stóðst því miður ekki. Þótt ég hefði undirbúið mig viðurkenni ég að ég hrökk hressilega við þegar ég heyrði tíðindin.“

Næstu aðgerðir metnar í birtingu

Næstu skref verða ákveðin þegar búið verður að fara yfir stöðuna með sérfræðingum Veðurstofunnar í fyrramálið. Hæpið er að það verði fyrir klukkan tíu. Fulltrúar lögreglu eru á Seyðisfirði í nótt.

Ef veður og aðstæður leyfa munu starfsmenn Múlaþings og verktakar fara til að hreinsa götur Seyðisfjarðar á morgun.

Íbúðarhús innan við Búðará eyðilagðist í skriðunni en óvíst er um tjón á svæðinu í kringum Tækniminjasafnið, að öðru leyti en að það er mikið. Skrifstofur sveitarfélagsins eru þar skammt fyrir utan en samkvæmt heimildum Björns sluppu þær.

Starfsmenn Náttúruhamfaratryggingar Íslands komu á svæðið í dag og segir Björn að sveitarfélagið muni aðstoða við að koma nauðsynlegum upplýsingum til íbúa. Þá á eftir að taka stöðuna á lagnakerfi svæðisins.

Samkvæmt tilkynningu frá Rarik eru skemmdir á bæði rafmagns- og hitaveitubúnaði fyrirtækisins. Rafmagnslaust frá smábátahöfninni að fiskimjölsveri Síldarvinnslunnar og heitavatnslaust utan við Lónsleiru.

Horft í áttina að Tækniminjasafninu eftir skriðuna í dag. Mynd: Guðjón Már Jónsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.