Listmálari rekur tattústofu á Eskifirði

Agnes Isabel hefur opnað tattústofu á Eskifirði og hefur töluvert að gera við að tattúvera íbúa þar sem og annarsstaðar að af Austurlandi. Agnes er jafnframt listmálari og hefur stundað fjarnám í myndlist við listaskóla í San Francisco.

Agnes er pólsk en hún kom hingað fyrir tæpum sex árum og er sest að á Eskifirði ásamt þýskum sambýlismanni sínum, Bastian Stange, og fimm börnum þeirra. Tvö barnanna átti hún fyrir og hann þrjú, áður en þau rugluðu saman reitum.

„Ég lærði tattúveringu árið 2013 þegar ég bjó í Dublin á Írlandi,“ segir Agnes Isabel. „Upphaflega notaði ég þessa kunnáttu meðal annars til að fegra, eða hylja, sár eða ör sem fólk hafði fengið eftir slys eða uppskurði.“

Fram kemur í máli Agnesar að þegar hún kom fyrst til landsins árið 2015 hafi hún farið beint til Eskifjarðar og sest þar að. Í byrjun vann hún ýmis störf áður en hún var ráðin til Rubix sem er eitt af þjónustufyrirtækjum Fjarðaáls. Í dag vinnur hún svo í hálfu starfi hjá Fjarðaáli samhliða rekstri á tattústofu sinni sem hún opnaði í nóvember undir nafninu BugPin Tattoo Shop. Sambýlismaður hennar vinnur hinsvegar í fullu starfi hjá Fjarðaáli.

Aðspurð um hvernig tattú kúnnar hennar á Eskifirði og víðar vilja fá sér segir Agnes að þau séu yfirleitt í smærra lagi, svo sem nöfn og litlar teikningar. Sumir vilji þó fá stærri tattú sem getur tekið allt að 15 tíma að gera. Minni tattúin taka hinsvegar ekki nema tvo til þrjá tíma að gera.

Eins og fyrr segir er Agnes Isobel einnig listmálari og á tattústofu hennar má sjá nokkur af verkum hennar. Agnes segir að listmálaranámið komi henni að góðum notum á stofunni.

Fram kemur í máli Agnesar að hún sé ánægð og sátt við að hafa komið til Eskifjarðar á sínum tíma. Alltaf sé hægt að hafa nóg fyrir stafni í bænum, einkum þar sem fjölskyldan sé fjölmenn.

„Það er gott að búa á Eskifirði og íbúarnir eru mjög elskulegir,“ segir Agnes.

Mynd: Agnes Isabel á tattústofunni sinni. Mynd FRI

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.