Listakona frá Portúgal sest að á Djúpavogi

„Við hjónin erum bæði að læra íslensku í augnablikinu enda höfum við hugsað okkur að búa hér áfram,“ segir Dileydi Florez, myndlistarkona frá Portúgal, sem sest hefur að á Djúpavogi ásamt eiginmanni sínum.

Í vetur hafa staðið yfir teikninámskeið á vegum Dileydi á Djúpavogi en hún hefur sérhæft sig í að teikna og skreyta myndasögur í blöðum og bókum. Á námskeiðinu fræðir hún fólk um teiknitækni, ræðir um sköpunarferli og hvernig hægt er að útfæra hugmyndir í teikningum. Auk þess er fræðsla um listræn hugtök eins og form, línur, hlutföll, liti og ímyndun.

Dileydi er fædd í borginni Bógóta í Kólumbíu en móðir hennar og stjúpfaðir fluttu til Lissabon, höfuðborgar Portúgal, þegar hún var kornung og þar ólst hún upp. Hún á að baki nám í myndlist og hönnun við skólá á borð við Universidade de Évora og IADE - Creative University.

Aðspurð um flutninginn til Íslands segir Dileydi að hún eigi mjög góðan vin hérna sem hafi hvatt hana til að koma hingað árið 2018. Hér væri næga vinnu að hafa og mun betri kjör en í Portúgal.

„Við hjónin ákváðum að slá til enda nær ómögulegt fyrir mig að fá vinnu við það sem ég var að læra. Ég var ekki hamingjusöm í Portúgal á þessum tíma enda áttum við erfitt með að ná endum saman fjárhagslega,“ segir hún. „Núna vinnum við bæði í fiskvinnslu hér á Djúpavogi.“

Náttúran heillar mig

Þegar þau hjónin komu til Íslands fyrst fengu þau starf við veitingar á Bifröst.

„Við höfðum verið í eina fimm mánuði á Bifröst þegar við ákváðum að skipta um og flytja á Djúpavog,“ segir Dileydi. „Það sem einkum hefur heillað mig hér er náttúran og umhverfið, sem er alveg einstakt.“

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að Dileydi og maður hennar fluttu austur hefur hún lagt stund á list sína meðfram vinnu í fiskvinnslu. Hún hefur meðal annars staðið fyrir svokölluðu „drink and draw“ kvöldi þar sem fólk kemur saman og teiknar. Sem stendur vinnur hún ásamt öðrum að gerð teiknimyndabókar í Lettlandi en útgáfufyrirtæki þar í landi bauð henni að vera með í því verki.

„Ég hef líka teiknað aðeins fyrir bæjarbúa hér og hef sinnt öðrum teikniverkefnum erlendis,“ segir Dileydi.

Mynd: Dileydi Florez líkar vel á Djúpavogi og náttúran heillar hana. Mynd Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.