Líst ljómandi vel á loðnuleitartúrinn

Daði Þorsteinsson skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni SU segir að sér lítist ljómandi vel á loðnuleitartúrinn sem skipið fer í strax eftir áramótin.

Aðalsteinn Jónsson SU er eitt af fimm skipum sem fara í leitina en þar á meðal eru bæði rannsóknarskip Hafrannsóknarstofunnar  Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson.

„Ég held að þetta verði árið sem loðnuveiðar og vinnsla rísa aftur til fyrri vegs og virðingar,“ segir Daði.

Fram kemur í máli Daða að gert sé ráð fyrir að skipin hefji loðnuleitina á laugardaginn kemur þ.e. 2. janúar. Eina sem getur komið í veg fyrir það er slæmt veður. 

Daði segir einnig að loðnuleit grænlenska skipsins Polar Amaroq í lok síðasta mánaðar gefi góðar vonir. Raunar hafi Hafrannsóknarstofnun gefið út 22.000 tonna kvóta í framhaldi af mælingum úr þeirri leit. Það sé að vísu mjög lítill kvóti og dugi vart fyrir erlendu loðnuskipin sem mega stunda loðnuveiðar hér við land samkvæmt samningum þar um.

„En þessi túr hjá Polar Amaroq gefur góð fyrirheit um framhaldið,“ segir Daði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar