Kom með kærastanum og stofnaði danslistarskóla

„Þetta var þannig í upphafi að ég á kærasta frá Vopnafirði og ég flutti hingað með honum enda svolítið hrifin af litlum bæjarfélögum og vil búa á slíkum stað,“ segir Urður Steinunn Önnudóttir Sahr sem stofnaði danslistarskóla sem hún nefnir Valkyrja á Vopnafirði. Skólinn tók til starfa í félagsheimilinu Miklagarði í janúar s.l. og verður starfandi fram á vor.

Urður Steinunn er frá Akureyri en hún á að baki nám í danslist við Institute of the Arts í Barcelona á Spáni og í Listadansskóla Íslands. Áður en hún og kærastinn, Bjartur Aðalbjörnsson, fluttu til Vopnafjarðar kenndi hún danslist á Akureyri í um hálft annað ár.

„Það vill svo til að pabbi kærastans míns, Aðalbjörn Björnsson, er skólastjóri og hann kom að máli við mig um að kenna dans hér á Vopnafirði og auka þar með fjölbreytni í bænum. Svo ég ákvað að slá til,“ segir Urður Steinunn. Hún tekur fram að hún hafi fengið mikinn og góðan stuðning frá sveitarfélaginu við að koma skólanum á fót.

Áhuginn kom á óvart

Prufuvikan í skólanum var haldin fyrr í vetur og segir Urður Steinunn að áhuginn hafi komið henni á óvart.

„Við vorum með skráningu í skólann og í upphafi hófu um 26 grunnskólanemendur í þremur aldurshópum námið,“ segir Urður Steinunn. „Í nánustu framtíð hef ég einnig hug á að koma á fóti hópum fyrir leikskólabörn og fyrir fullorðna.“

Urður Steinunn segir að danslist sé einkum hugsuð fyrir svið og líkist því helst ballett og nútímadansi. „Danslistarkennsla felst mest í grunn ballett- og nútímadanstækni, sköpun og tjáningu." segir Urður Steinunn.

Mynd: Urður Steinunn á sviðinu./Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar