Húsasmiðjan styður íbúa Seyðisfjarðar

Húsasmiðjan afhenti í dag Rauða krossi Íslands í Múlasýslu tveggja milljóna króna styrk, í formi inneignar til að aðstoða þá íbúa Seyðisfjarðar sem mesta hjálp þurfa á að halda, með byggingavörur, eftir hamfarir síðustu daga.

Í frétt frá Húsasmiðjunni segir að mikið hafi mætt á Rauða krossinum á Austurlandi eftir þær miklu náttúruhamfarir sem urðu á Seyðisfirði. Rauði krossinn mun sjá um að útdeila styrknum til þeirra sem mest þurfa á að halda.

„Hugur okkar allra er hjá íbúum á Seyðisfirði og við erum eins og landsmenn allir slegin yfir þessum hamförum. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir þá sem hafa misst heimili sín nú rétt fyrir jólin og óvissan hjá þeim fjölskyldum er mikil. Við viljum því rétta fram hjálparhönd til vina okkar á Seyðisfirði og leggja okkar af mörkum,“ segir Þorsteinn Óli Kjerúlf, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum.

„Það er dýrmætt að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu og þessi styrkur frá Húsasmiðjunni mun svo sannarlega koma sér vel. Við munum úthluta honum áfram til þeirra sem eru í mestri neyð á svæðinu,“ segir Berglind Sveinsdóttir, formaður Rauða krossins í Múlasýslu.

Þorsteinn Óli segir að starfsfólk Húsasmiðjunnar á Egilsstöðum hafi fylgst vel með aðgerðum og að hreinsunarstarf og björgun verðmæta sé nú að hefjast. Sem dæmi þurfti að kalla eftir neyðarsendingu með flugi úr vöruhúsi Húsasmiðjunnar í Reykjavík um helgina með skóflum, hrífum, og fleiru sem þarf til hreinsunarstarfsins.

Þorsteinn Óli segist finna fyrir miklum hlýhug til Seyðisfirðinga og allir vilja leggja sitt af mörkum. „Þetta er reyndar stór hluti af okkar menningu í Húsasmiðjunni um land allt en við erum alvön því að standa vaktina allt árið um kring og opna timbursölur okkar og verslanir fyrir björgunarsveitum kvölds og morgna í veðurofsum á veturna eða á öðrum tímum þegar á þarf að halda og við höldum því að sjálfsögðu áfram.”

Þorsteinn Óli afhendir Berglindi gjafabréf með styrknum. Mynd: Húsasmiðjan


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.