Háskólastigið mikilvægt og opnar dyr

„Staðfestingin er mikil viðurkenning og opnar dyrnar að samstarfi við aðrar menntastofnanir. Nám í Sjálfbærni og sköpun er nú á 4. hæfniþrepi sem samsvarar háskólastigi en nemendur þurfa að hafa lokið stúdentsprófi, iðnnámi eða sambærilegu til að innritast.“

Þetta kemur fram í máli Bryndísar Fionu Ford skólameistara Hallormsstaðaskóla en mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti nýlega í Stjórnartíðindum Sjálfbærni og sköpunarbraut skólans.
 

Hallormsstaðaskóli fagnar 90 ára starfsafmæli um þessar mundir. Allt frá stofnun skólans hefur áherslan verið á nýtingarmöguleika náttúrulegra afurða og sjálfbærni. Á þessu 90 ára afmæli hefur sögulegum áfanga verið náð með staðfestingu heilsárs námsbrautar og endurnýjun viðurkenningu skólans sem einkaskóla.

„Hið nýja nám byggir á sterkum grunni og er í raun eðlilegt framhald af því starfi sem lagt var upp með við stofnun skólans. Námið er bæði verklegt og bóklegt, þverfaglegt og krefjandi þar sem fengist er við hin stóru viðfangsefni dagsins í dag með lærdóm fyrri kynslóða í farteskinu. En til að takast á við áskoranir framtíðarinnar þá skiptir mestu máli að virkja sköpunarkraft nemenda, kenna þeim gagnrýna hugsun og hvetja þá til að vera leitandi og lausnamiðaðir í allri sinni vinnu.“ segir Bryndís.

 Fram kemur í máli Bryndísar að verkleg kunnátta er mikilvægur hluti af náminu og því er lögð áhersla að nemandinn kynnist helstu aðferðum og tækni í margskonar handverki.

„Markmið skólans er að standa vörð um þann menningararf sem gamalt handverk er. Nemendur fá kennslu í gömlum aðferðum sem eru að glatast meðal annars í byggingarlist, textíl, meðferð matvæla og heilsufræði.  Allt þetta er liður í því að svara spurningunni; Hvernig getum við lifað sjálfbæru lífi í ósjálfbærum heimi?“ segir Bryndís.

„Skólinn skapar einstakar vinnuaðstæður til að meðhöndla og vinna hráefni þar sem gamli tíminn mætir nútíma tækni. Frá baðstofunni með handvefnað til nútíma véltækja í orkuvinnslu geta nemendur einbeitt sér að hugmyndavinnu, rannsakað nýtingarmöguleika og unnið í nýsköpun.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.