Hálendishringur á Austurlandi í sigtinu

Byggðaráð Múlaþings hefur samþykkt að legga til við sveitarstjórn að áhersla verði lögð á útvega fjármagn til framkvæmda við Hálendishring á Austurlandi.


Þetta kemur fram í tillögu sem var lögð fram og samþykkt á fundi Byggðaráðs í morgun. Um er að ræða bættan ferðamannaveg frá Kárahnjúkastíflu út að bænum Brú á Jökuldal . Hefur málið verið til skoðunar frá áramótum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Múlaþings. Þar kemur fram að undir þessum lið á fundinum mætti Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Austursvæðis Vegagerðarinnar og fór yfir hugmyndir sem fram hafa komið um vegabætur á þessari leið og ræddi útfærslu þeirra við byggðaráð.

Einnig fór Sveinn yfir og svaraði spurningum varðandi ýmsar vegaframkvæmdir og þjónustu vega innan sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

„Byggðaráð Múlaþings leggur til við sveitarstjórn að lögð verði á það áhersla við fjárveitingarvaldhafa að gert verði ráð fyrir fjármagni til hönnunar, endurbóta og framkvæmda við Hálendishring á Austurlandi, í samræmi við framkomnar hugmyndir, sem verði unnar í samstarfi við Vegagerðina og hagsmunaaðila. Mikilvægt er að í þær framkvæmdir verði ráðist sem fyrst þannig að hægt verði mæta fyrirsjáanlegri þjónustuþörf vegna innlendra og erlendra ferðamanna á svæðinu.“

Samþykkt samhljóða án atkvæðagreiðslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar