Grunn- og tónlistarskólar opnaðir eftir páska

Grunn- og tónlistarskólar á Austurlandi munu verða opnaðir fyrir staðnám eftir páskana. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð sem heilbrigðisráðherra hefur gefið út.


Fjallað er um málið á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að staðnám getur hafist að nýju á öllum skólastigum eftir páskafrí með ákveðnum takmörkunum, í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

„Við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að gera nemendum á öllum skólastigum kleift að ljúka skólastarfinu á sem bestan hátt miðað við aðstæður“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á vefsíðunni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra segir að skólasamfélagið hafi sýnt ómældan sveigjanleika og þrautseigju í þessum aðstæðum og fyrir það séum við þakklát og stolt.

„Þessar ráðstafanir nú eru kunnuglegar mörgum frá því fyrr í vetur en vonandi þurfum við ekki að búa við þær lengi. Við erum bjartsýn þó staðan sé flókin og munum klára þetta saman,“ segir Lilja

Hvað grunnskóla varðar segir m.a. að nemendur eru undanþegnir nálægðartakmörkun og grímuskyldu. Viðburðir eru heimilir í skólastarfinu með þátttöku nemenda og starfsfólks en engum utanaðkomandi. Hámarksfjöldi nemenda í rými er 50 og blöndun milli hópa innan sama skóla er heimil.

Hvað tónskóla varðar segir m.a. að halda skal 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. Annars skal nota grímur sé þess kostur. Viðburðir eru heimilir fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri með sömu skilyrðum og gildir um skólastarf þeirra. Um viðburði fyrir einstaklinga fædda 2004 fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.