Go-IoT hlýtur inngöngu í LoRa Alliance

Austfirska tæknifyrirtækið Go-IoT er orðinn fullgildur meðlimur að LoRa Alliance, samtökunum að baki LoRa WAN samskiptastaðlinum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir aðildina mikilvæga fyrir fyrirtækið til að koma sér á framfæri og hafa áhrif á þróun staðalsins.

„Þetta eru samtök fyrirtækja sem standa að baki þráðlausum staðli sem er til samskipta við skynjara og fleiri tæki. LoRa WAN er í samkeppni við tæknina sem við þekkjum undir nafninu 5G.

Munurinn er hins vegar sá að LoRa Wan er langdræg tækni sem notar litla orku, hún getur farið í gegnum mörg lög af steypu í háhýsum sem venjuleg þráðlaus tækni gerir ekki og skynjararnir geta notast við batterí sem endast í 15-20 ár.

Gagnaflutningurinn er hægari, þú ert ekki að fara að horfa á myndband yfir LoRa Wan en staðallinn er nógu öflugur ef senda þarf 4-5 tölur sem sýna til dæmis hita, raka og magn koltvísýrings á 15 mínútna fresti. Þetta eru litlar en mikilvægar upplýsingar,“ segir Þröstur Jónsson, framkvæmdastjóri Go-IoT, sem þróað hefur tækni sem byggir á samskiptastaðlinum.

Loftgæði skoðuð í faraldrinum

Go-IoT hefur einkum einbeitt sér að þróun lausna fyrir byggingariðnaðinn, svo sem til að stýra hitastigi í byggingum og nú loftgæðum en áherslan á þau hefur aukist í Covid-faraldrinum eftir að sýnt var fram á hvernig veiran getur dreifst með lofti.

„Lengi vel var ekki hugsað mikið út í loftgæðin við byggingu húsa en þau reyndust mjög slæm, jafnvel á heimilum, þegar farið var að skoða málið. Til að mæla loftgæðin þarf skynjara og það getur verið mikið mál að bæta þeim við eftir á ef draga þarf í lagnir og slíkt. Þess vegna hafa menn frekar sett upp skynjara í hvert herbergi sem senda gögn frá sér í einn sameiginlegan þjón.

LoRa WAN hefur líka verið notuð til að fylgjast með kæli- og frystivörum sem verið er að flytja þar sem hitinn má ekki fara yfir ákveðið mark. Með þessari tækni má á ódýran hátt safna miklu magni upplýsinga sem ekki voru aðgengilegar áður vegna kostnaðar,“ útskýrir hann.

Einfaldari uppsetning og meira öryggi

Go-IoT framleiðir Dingo-vörulínuna. Áherslan þar hefur verið á móttakara sem taka við gögnum í gegnum LoRa WAN en fyrirtækið vinnur nú einnig að gerð skynjara sem væntanlegir eru á markað fyrri lok ársins.

„Venjulega eru gögnin send yfir í móttakara sem staðsettur er utan húss með að senda þau fyrst yfir netsamband í skýjaþjón. Á þessu er enginn staðall, hver gerir þetta með sínu móti.

Við sleppum hins vegar þjónustunni í skýinu en höfum móttakarann inni í byggingunni sem eykur öryggið og einfaldar. Við breytum líka LoRa-skynjurum yfir á BACnet, sem er ráðandi staðall í byggingastjórnunartækni. Með því sjást LoRa-skynjarar eins og hvert annað BACnet tæki og þar með verður auðveldara fyrir þá sem eru vanir að nota BACnet, sem eru þó nokkrir, að nota LoRa-skynjara.“

Tækifæri til markaðssetningar og hafa áhrif á þróunina

Þröstur segir það skipta Go-IoT töluverðu máli að hafa nú hlotið aðild að LoRa Alliance. „Það er töluvert mál að fá aðild því það þarf að sýna fram á trúverðugleika. Nú birtist Go-IoT á heimasíðu samtakanna sem eitt þeirra fyrirtækja sem styðja við tæknina og þar getum við miðlað frá okkur upplýsingum, en flestir sem eru að leita að LoRa-búnaði byrja á henni.

Við fáum líka aðgang að faghópum sem eru að þróa staðalinn og áhrif á hvað þar er í gangi. Aðildin felur því í sér tækifæri til markaðssetningar, að hafa áhrif á framþróunina og viðurkenningu.“

Rekstrarstöðvun í kjölfar skriðufallanna

Go-IoT er með fjóra fasta starfsmenn, tvo á Íslandi og tvo í Bretlandi. Starfsmennirnir hér starfa annars vegar á Egilsstöðum, hins vegar á Seyðisfirði. Fyrirtækið var eitt þeirra sem hafði aðsetur í Silfurhöllinni sem eyðilagðist í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember. Það hefur haft töluverð áhrif á starfsemina. Sjö fyrirtæki með alls 12 starfsmönnum voru með starfsemi þar.

„Við töpuðum tölvubúnaði og ýmsu dóti. Við áttum afrit af öllum gögnum en stóra tjónið felst í rekstrarstöðvuninni, að starfsmaðurinn geti ekki áfram mætt á sína föstu skrifstofu til að vinna. Sú stöðvun stendur enn yfir og ég held að það hafi orðið mikil truflun á starfsemi allra þeirra fyrirtækja sem voru í Silfurhöllinni. Okkar starfsmaður hvarf fyrst frá störfum en hefur eiginlega verið á vergangi síðan, annað hvort komið í Egilsstaði eða setið heima.

Starfsstöðin á Seyðisfirði var mikilvæg fyrir okkar starfsemi. Þar var hálfgerð rannsóknarstofa sem við höfum ekki náð að koma upp aftur. Þetta kom líka á viðkæmum tíma, við vorum að ganga inn í LoRa Alliance.

Við veitum alþjóðlega þjónustu þar sem við getum ekki hringt í viðskiptavini okkar og sagt að við getum ekki þjónustað þá næstu tvo mánuðina því skrifstofan sé komin á kafi í firði á Íslandi. Það er ekki tekið gilt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.