Glóð opnar fyrir rómantískan konudag

Veitingastaðurinn Glóð á Egilsstöðum mun hafa opið á laugardag- og sunnudagskvöld í tilefni konudagsins í ár. Boðið er upp á veglegan kvöldverð. Um er að ræða einstaka opnun en stefnt er að því að opna Glóð að fullu aftur í apríl eða fyrr.

Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir framkvæmdastjóri 701 Hótels segir að vegna sóttvarna muni aðeins 36 manns í einu komast að og því sé mikilvægt að panta fyrirfram. Sjálfan konudaginn ber upp á sunnudaginn 21. febrúar í ár.

„Laugardagurinn er orðinn ansi þéttur hjá okkur en það er mikilvægt að fólk panti borð því við getum ekki tryggt borð fyrir þá sem koma án þess að hafa pantað,“ segir Sigrún Jóhanna. „Það er mest um pör að ræða sem hafa pantað hjá okkur hingað til en einnig stöku hópar.“

Fram kemur í máli hennar að það sé eftirspurn eftir því að Glóð opni að nýju en staðurinn hefur verið lokaður frá því s.l. haust vegna COVID.

„Við stefnum að því að opna staðinn að nýju í apríl en það fer svolítið eftir því hvernig sóttvarnir þróast á næstunni. Við viljum gjarnan opna fyrr og eins og er metum við stöðuna frá mánuði til mánaðar,“ segir Sigrún Jóhanna.

Fram kemur í máli hennar að undir eðlilegum kringumstæðum getur Glóð við tekið um 70 manns í sæti en möguleika er á að hafa fleiri gesti með því að nota hliðarsali.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.