Gleðin yfir að allir séu lifandi sterkari en tilfinningin um hörmungarnar

Íbúi á Seyðisfirði segir bæjarbúa þakkláta fyrir að enginn hafi slasast þegar mikil skriða féll á utanvert þorpið í gær. Hann kveðst lítið hafa heyrt rætt um framtíðina en telur nauðsynlegt að læra af því sem gerst hafi. Atburðir gærdagsins ítreki nauðsynina á jarðgöngum til staðarins.

„Ég held að tilfinningar Seyðfirðinga sé blendnar. Allir eru svakalega glaðir yfir að allir séu á lífi en líka rosalega daprir yfir því sem gerðist. Gleðin er þó yfirsterkari en tilfinningin um hörmungarnar. Allir sem ég hitti tala svona.

Það skilja allir rýminguna. Þótt einhverjir telji sig kannski örugga þá bjargaðist fólk naumlega sem taldi sig vera á öruggum stað. Það er samt enginn staður öruggur nema lengst frá fjallinu.“

Þetta segir Ólafur Hr. Sigurðsson, íbúi á Seyðisfirði, fulltrúi í heimastjórn og fyrrum bæjarstjóri. Hann var á ferðinni við sinn gamla vinnustað, grunnskólann, þegar stóra skriðan féll út Botnabrún utan Búðarár rétt fyrir klukkan þrjú í gær.

„Ég var á leiðinni upp með skólanum þegar ég sá rafmagnið fara af útbænum. Ég hélt það hefði farið fallið skriða fyrir innan þannig ég beygði inn Garðarsveginn. Þegar ég sá að þar var straumur fattaði ég að eitthvað hefði gerst upp frá. Ég snéri við og þá heyrði ég drunur og læti. Ég keyrði út á hafnarsvæðið og fylgdist með restinni koma niður. Það rann stykki og stykki úr í örugglega hálftíma á eftir.“

Nauðsynlegt að læra af því sem gerst hefur

Ólafur var í dag kallaður til starfa í vettvangsstjórn almannavarna. Hann segist þess vegna takmarkað hafa hitt Seyðfirðinga og getað rætt við þá um næstu skref eða framtíðina. „Ég hef ekki getað sest þannig niður með stórum hópum. Núna snýst þetta um hvenær má hleypa fólki inn á svæðið og byrja að hreinsa. Þangað verður engum hleypt inn fyrr en svæðið er orðið öruggt. Að öðru leyti geri ég mér ekki grein fyrir hvað fólk mun gera.“

Eins og Ólafur bendir á var fólk heima í húsum undir brúninni þar sem skriðan kom niður og hluti hennar lenti meira að segja á húsnæði björgunarsveitarinnar þar sem aðgerðastjórn hafði aðsetur. Ljóst er að mikil umræða er framundan um framtíð þess svæðis.

„Umræðan um nýtt hættumat, viðbrögð og fleira slíkt í samræmi við það sem menn hafa lært er síðan framundan. Það er mikilvægt að heimafólk verði með í þeirri umræðu,“ segir Ólafur.

Hann telur atburði gærdagsins sanna að þegar öllu sé á botninn hvolft skipti jarðgöng mestu máli fyrir öryggi Seyðfirðinga. „Við aftakaaðstæður eru engar varnir. Það er til dæmis erfitt að finna skjól fyrir snjóflóðahættu. Í gær hefðum við getað lent í að Fjarðarheiðin væri kolófær. Við verðum að geta farið í burtu þegar svona aðstæður skapast. Kannski skapast þær bara á 100 ára fresti, en þetta gæti líka gerst aftur á næsta ári.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.