„Gáfum í og komum okkur undan“ - Myndir

Ekki er annað vitað en allir þeir sem staddir voru á Seyðisfirði laust fyrir klukkan þrjú í gær þegar miklar skriður féllu á utanverðan bæinn séu ómeiddir þótt sumir hafi sloppið með skrekkinn. Lögreglumenn við störfum voru meðal þeirra sem sáu skriðuna koma niður og forðuðu sér.

„Skriðan var gríðarstór en við vitum ekki til þess að neinn einstaklingur hafi lent í henni.

Við vorum þarna tveir lögreglumenn rétt hjá. Við vorum við gamla Landsbankann og ætluðum að gamla pósthúsinu. Ég ætlaði út í björgunarsveitarhús að ná í bíl. Sem betur fer varð ekki úr því.

Við heyrðum gríðarlegar drunur og sáum hlíðina koma niður. Við gáfum í og komum okkur undan,“ segir Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi.

Fleiri sluppu með skrekkinn. „Fólk forðaði sér jafnvel á hlaupum. Það var fólk í íbúðarhúsi sem skriðan fór sitt hvoru megin við. Því var eðlilega brugðið,“ segir Þórhallur.

Miklar skemmdir á svæði Tækniminjasafnsins

Umfang skriðanna, bæði stærð og fjöldi, hefur ekki verið staðfestur. Skriða sem féll niður Búðará tók niður hús sem stóð innan við hana. Sjónarvottar segja að nær öll hlíðin hafi komið niður. Vitað er að skriða féll yfir svæði Tækniminjasafns Austurlands, sem er nokkru utar, en skemmdir þar eru ekki kunnar að öðru leyti en þær eru miklar.

Í samtali við Austurfrétt sagði Þórhallur að skriðan hefði hrifið með sér 7-8 hús en aðrar heimildir segja tíu. Þá eru ótalin smáhýsi á svæðinu. Engar spurnir eru um fólk í húsunum sem urðu fyrir skriðunni.

Skriðurnar féllu þegar klukkuna vantaði um tíu mínútur í þrjú og ekki fór framhjá neinum að eitthvað mikið var að gerast því gríðarlegar drunur heyrðust úr fjallinu. Um klukkutíma síðar virðist ákvörðun um að rýma bæinn hafa legið fyrir.

Varúðarráðstöfun að tæma bæinn

Þá var öllum þeim sem staddir voru á Seyðisfirði skipað að koma í fjöldahjálparmiðstöðina í félagsheimilinu Herðubreið og skrá sig. Þar fékk fólk upplýsingar um næstu skref, sem voru annað hvort að fara á einkabíl upp í Egilsstaði eða fá far með rútum. Skráningunni var lokið upp úr klukkan sex og bærinn þá nánast orðinn mannlaus.

Þórhallur segir ákvörðunina um að rýma bæinn hafa verið tekin til að tryggja öryggi bæjarbúa. Ekki er hægt að meta ástandið í hlíðinni auk þess sem ekki virðist á neitt treystandi.

„Það er búið að rigna gríðarlega lengi og menn eru óvissir um stöðuna í fjöllunum fyrir ofan bæinn. Mér skilst á heimamönnum sem ég hef talað við að það hafi komið þeim gríðarlega á óvart að skriðan félli þarna. Fyrst og síðast var þessi ákvörðun tekin í öryggisskyni. Hluti bæjarins var rafmagnslaus og við vitum í raun ekkert um þróun mála og komið fram í myrkur.“

Hann segir rýminguna hafa gengið vel. Aðgerðastjórn var færð upp í Egilsstaði en vettvangsstjórn er enn á Seyðisfirði. Þar var reynt að lýsa upp í hlíðina í kvöld til að kanna ástandið. Björgunarsveitarfólk var komið víða af Austurlandi sem og sjálfboðaliðar Rauða krossins. Þá er von á sérsveit lögreglunnar austur. Þegar Austurfrétt ræddi við Þórhall á sjöunda tímanum hafði ekki verið tekin ákvörðun um hvort lokað yrði fyrir umferð yfir Fjarðarheiði í nótt.

Þórhallur segir verið að meta stöðuna og það sem gerst hafi. „Það er verið að vinna í þessu, þetta er mikið umleykis. Það kemur staðfesting á því sem gerst hefur fyrr en síðar.“

Seydisfjordur Skrida 20201218 0046 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0050 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0051 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0052 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0054 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0060 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0061 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0063 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0067 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0073 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0074 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0077 Web
Seydisfjordur Skrida 20201218 0082 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.