Fyrirtæki vilja finna leiðir til að draga úr úrgangi

Opinn fundur verður haldinn á Egilsstöðum á mánudag á vegum Umhverfisstofnunar sem hluti af verkefninu „Saman gegn sóun.“ Verkefnastjóri segir einstaklinga vera orðna vel meðvitaða en nú sé komið að fyrirtækja, vegna krafna frá bæði neytendum og stjórnvöldum en einnig því þau sjá tækifæri til að hagræða í rekstri.

„Saman gegn sóum er verkefni sem Umhverfisstofnun hefur verið með síðan 2016. Það byggir á úrgangsforvarnastefnu stjórnvalda, sem miðar að því að draga úr því að úrgangur verði til. Það hefur verið gert með ráðgjöf og fræðslu til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

Ráðherra vill núna uppfæra stefnuna sem gefur okkur tækifæri til að heyra í fyrirtækjum, stofnunum og almenningum til að fá innlegg um hvernig best sé að halda áfram,“ segir Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslags- og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.

Áherslan undanfarin ár hefur verið á fræðslu og vitundarvakningu en nú sé hún að færast á aðgerðir, einkum hjá fyrirtækjum. „Einstaklingarnir eru orðnir mjög meðvitaðir og rannsóknir sýna að þeir leggja sig fram. Nú finnst fólki vera kominn tími á að fyrirtækin stígi fram. Þau hanna og setja vörur á markað þannig þau hafa mikið um þetta að segja.“

Framleiðslan fari ekki beint í ruslið eftir notkun


Birgitta segir ýmsa hvata í gangi fyrir því að draga úr sóun. Bæði geti fyrirtæki, með að draga úr sóun, hagrætt í rekstri en einnig þrýsti neytendur og stjórnvöld á þau sem og fyrirtækin sjálf.

„Neytendur gera kröfur en fyrirtækin þrýsta fyrirtækin hvert á annað í gegnum virðiskeðjuna. Síðan eru stjórnvöld, jafnt hér sem í Evrópu, að herða reglur sem snúa ekki bara að úrganginum heldur að koma í veg fyrir að settar séu vörur á markað sem fari beint í urðun heldur sé hægt að nota lengur, endurvinna eða gera við.

Þetta hefur til dæmis verið vandamál í tískugeiranum þar sem framleidd eru föt sem endast verr. Við viljum líka fá fyrirtæki til að hugsa hvernig hægt sé að fullnýta hráefnið, eins og gert hefur verið mjög vel í íslenskum sjávarútvegi.“

Hún segir fyrirtæki viljug til að vinna að verkefnunum en lausnirnar séu ekki alltaf auðveldar. „Við sjáum að fyrirtæki eru áhugasöm því þau leita til okkar um ráðleggingar og við reynum að svara þeim. Umhverfismálin geta hins vegar verið flókin því framleiðsla getur haft mismunandi áhrif, hvort sem það er að losa gróðurhúsalofttegundir eða nota takmarkaðar auðlindir.“

Samtal um aðgerðir


Tveir fundir eru búnir í hringferðinni, annars vegar á Ísafirði, hins vegar á Akureyri. Birgitta segir umræðurnar til þessa hafa verið afar mismunandi milli staða.

Fundurinn verður haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum og hefst klukkan 13:00 á mánudag. Hann er tvískiptur. Fyrri hlutanum er streymt en hann byggist upp á erindum. Í fyrsta lagi frá Umhverfisstofnun, síðan segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, frá hringrásarhagkerfi á Austurlandi og síðan kynna Alcoa Fjarðaál, Hallormsstaðaskóli og Fjarðabásar frá sinni vinnu.

Seinni hlutinn verður samtal um aðgerðir. Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki um 15:30. Hann er öllum opinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.