Fyrirtæki á Seyðisfirði búa við annan veruleika en fyrir miðjan desember

Fjöldi fyrirtækja á Seyðisfirði hefur orðið fyrir beinum og óbeinum áhrifum af skriðuföllunum þar í desember. Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir þau þurfa stuðning til að nýta þau tækifæri sem framundan eru og koma sér aftur á rétt ról.

„Fólk sem þekkir ekki til á Seyðisfirði gerir sér ekki grein fyrir hversu mikil áhrif þetta hefur út fyrir skriðusvæðið. Stór hluti athafnasvæðis atvinnulífsins á Seyðisfirði er á þessu svæði, út með firðinum.

Þarna eru forsvarsmenn fyrirtækja sem standa frammi fyrir allt örðum veruleika veruleika en þeir gerðu um miðjan desember,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem leitt hefur greiningarvinnu á atvinnulífinu á Seyðisfirði.

Ekki fyrsta ágjöfin

Stofnunin hefur síðustu vikur unnið að víðtækri greiningu á atvinnulífinu á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna og kynnti frumathuganir hennar á upplýsingafundi á mánudag. Jóna Árný benti á að þetta væri ekki fyrsta áfallið sem atvinnulífið á Seyðisfirði yrði fyrir á síðustu árum, loðnubrestur tvö ár í röð, samdráttur í kolmunnaveiði og Covid-faraldurinn hefðu verið á undan.

Starfsfólk Austurbrúar hefur bæði tekið saman talnagögn og greint en einnig rætt við atvinnurekendur sem orðið hafa fyrir tjóni. Fyrst hefði verið rætt við stjórnendur fyrirtækja sem urðu fyrir beinu tjóni, það er húsnæði þeirra lenti í skriðunum en síðan þeirra sem hefðu orðið fyrir óbeinum áhrifum, til dæmis ekki getað stundað atvinnustarfsemi þar sem skriðan lokaði veginum út með firðinum eða vegna rýminga.

Vantar alls konar atvinnuhúsnæði

Mörg fyrirtæki voru með starfsemi á skriðusvæðinu. Talsvert hefur verið fjallað um Tækniminjasafn Austurlands, sem auk hefðbundinnar safnastarfsemi stóð í endurbótum á húsnæði sínu. Stærsta einstaka tjónið á svæðinu varð hjá Stjörnublæstri sem var með starfsemi í Skipasmíðastöðinni þeirri yngri, eða rauðu skemmunni sem er sjáanleg á mörgum myndum af svæðinu. Þá er ótalin Silfurhöllin sem hýsti sjö fyrirtæki með alls ellefu starfsmenn.

Jóna Árný sagði viðfangsefni þessara rekstraraðila flókin og oft einstaklingsbundin. Hjá þeim væri mikil vinna við tryggingamál en ljóst sé að mikið sé um ótryggt tjón sem hafi áhrif. Margir þessara aðila eru komnir vel á veg með skammtímalausnir en þær kosta oft tíma og peninga.

Jóna Árný sagði rauðan þráð í viðtölum við aðila af þessu svæði hafa verið skort á skrifstofu- og geymslurými í bænum, sem og almennan skort á verkstæðis- og atvinnuhúsnæði á Seyðisfirði. „Þarna hefur þurft að vinna hratt og mikið í mörgum verkefnum,“ sagði hún.

Mikilvægt að tryggja stöðugleika fyrir fyrirtæki og fólk

Óbeinu áhrifin eru síðan margvísleg og nokkur ár getur tekið fyrir þau að koma almennilega í ljós. Þannig kunna í hamförunum að hafa týnst gögn eða verkfæri sem fólk áttaði sig ekki á hve mikilvæg voru fyrr en þau voru horfin. Jóna Árný kom einnig inn á umhverfi stjórnenda, til viðbótar við almennt áfall af skriðuföllunum þyrftu þeir að leysa úr flókinni rekstrarstöðu.

Það sama má segja um áhrif á starfsfólk, sem í einhverjum tilfellum á eftir að endurvekja traust sitt á staðnum. Jóna Árný benti á að mikilvægt væri að tryggja atvinnulífið því það væri kjölfesta í daglegu lífi fólks sem aftur væri lykilatriði til að fólk gæti unið sig út úr áföllum. Hamförin geta einnig haft áhrif á hluti eins og ímynd og fjármögnunarmöguleika.

Jóna Árný sagði atvinnulífið á Seyðisfirði almennt fjölbreytt og þrautseigt en hamfaraástand reyndi verulega á. Mikilvægt væri að tryggja stöðugleika fyrir núverandi atvinnurekstur, styðja atvinnulífið til að nýta þau tækifæri sem til staðar eru og aðstoða þau við að ráða fram úr flóknum rekstrar- og tjónamálum eða koma öðrum viðfangsefnum í viðeigandi ferli.

Hún sagði mikla vinnu framundan sem væri aðeins rétt að byrja. Í henni væri samvinna við atvinnulífið afar þýðingarmikil. „Þetta eru fyrstu skrefin í þessari vinnu en við sækjum í reynslu annarra landshluta sem hafa þurft að ganga í gegnum náttúruhamfarir á allra síðustu árum hvort sem um ræðir snjóflóð, ofsaveður eða öskufall. Slík samvinna er ómetanleg í svona verkefnum og sýnir mikilvægi þess að nýta þekkinguna á milli landhluta því öll viljum við standa vörð um atvinnulífið og grundvöll samfélaganna okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.