Forseti Íslands sendir Austfirðingum hlýjar kveðjur

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sent íbúum á Seyðisfirði og Eskifirði, sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skriðuhættu, kveðjur sem og öllum sem standa þar vaktina. Hann segir þjóðina alla standa nú saman.

„Ég sendi hlýjar kveðjur til Seyðfirðinga og Eskfirðinga. Miklar þakkir færi ég líka þeim sem vinna á vettvangi. Á stundum sem þessum megum við muna eftir mikilvægi björgunarsveitanna í okkar samfélagi,“ segir í orðsendingu sem forsetinn sendi frá sér á Facebook í kvöld.

Þar fer hann lauslega yfir stöðuna, að íbúar hafi neyðst að yfirgefa heimili sín en öllum Seyðfirðingum var gert að yfirgefa heimili sín um klukkan fjögur í dag og fara upp í Egilsstaði.

„Héraðsbúar og aðrir Austfirðingar bjóða Seyðfirðingum húsaskjól. Björgunarsveitir, lögregla og aðrir sem sinna almannavörnum stýra aðgerðum af fumleysi og fagmennsku. Öll stöndum við núna saman, hugsum hlýtt til samlanda okkar sem lent hafa í hinum miklu hremmingum og bjóðum þá aðstoð sem að gagni kemur.

Úrhellinu slotar senn. Þá verður hafist handa við hreinsunarstarf. Svo hefst uppbyggingin. Í henni stöndum við líka saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.