Fjarðabyggð vill rífa Rauðu braggana þótt Minjastofnun vilji vernda

Nefndir Fjarðabyggðar vilja ekki að sveitarfélagið hviki frá áður útgefnu leyfi til að rífa húsin að Strandgötu 98b á Eskifirði, betur þekkt sem Rauðu braggarnir þar sem harðfiskverkun Sporðs var áður til húsa. Minjastofnun vildi að áformin yrðu endurskoðuð þar sem hún eru bæði hluti af atvinnusögu bæjarins og hafa tilfinningalegt gildi fyrir bæjarbúa.

Sveitarfélagið keypti húsinu fyrir um ári síðan, eftir að harðfiskverkuninni var hætt, og hugðist rífa þá. Fyrir mánuði var ekkert að vanbúnaði við að hefja verkið en þá fóru íbúar á Eskifirði af stað með undirskriftasöfnun auk þess sem haft var samband við Minjastofnun sem óskaði eftir upplýsingum frá Fjarðabyggð.

Tæplega 330 manns skráðu nafn sitt á listana og á áliti sínu hvetur Minjastofnun til þess að Fjarðabyggð endurskoði áform sín um niðurrif og kanni möguleika á nýtingu þeirra, að hluta eða í heild, við nærliggjandi söfn og sýningar.

Skakkt að rífa raunverulegar minjar svo búa megi til safnasvæði

Í umsögn stofnunarinnar segir að saga húsanna og „sérstakt byggingarlag þeirra sé forvitnileg viðbót við sjóhúsinu gömlu í næsta umhverfi.“ Það er sagt vitna til um útsjónarsemi þeirra sem reistu þau af litlum efnum. Grunnar þeirra og gólf eru steypt en annars notast við bandaríska herbragga. Flutningur þeirra á nýjan stað er ekki talinn gerlegur út af undirlaginu.

Þeim er einnig lýst sem merkum hluta af atvinnusögu Eskifjarðar, en þau voru reist fyrir saltfiskvinnslu Sporðs. „Það skýtur skökku við að fjarlægja raunverulegar minjar um sögu svæðisins til að rýma fyrir nýju, tilbúnu safnasvæði.“

Innan Fjarðabyggðar hefur verið með unnið með svæðið í kringum húsin sem væntanlegt safnasvæði og hugmyndir um að flytja þangað gömul hús annars staðar úr bænum. Minjastofnun lýkur erindi sínu á að minna á að sá flutningur sé háður leyfi húsafriðunarnefndar og þótt Minjastofnun hafi fjallað um deiliskipulagstillögu svæðisins jafngildi það ekki samþykki fyrir flutningi húsa þangað, þótt það hafi verið nefnt sem möguleiki.

Þá bendir stofnunin á þótt húsin séu það ung að þau njóti ekki lögformlegrar verndar séu þau innan svæðis sem njóti hverfisverndar samkvæmt deiliskipulagi. Húsin voru ekki víkjandi í því skipulagi þegar Minjastofnun veitti álit á því árið 2016.

Sagan ekki varðveitt með að vernda allt atvinnuhúsnæði

Afstaða sveitarfélagsins virðist ekki hafa breyst þrátt fyrir um 350 undirskriftir og neikvæða umsögn Minjastofnunar. Á fundi sínum í síðustu viku ákvað eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd að breyta ekki áður útgefnu leyfi sínu til niðurrifs.

Nefndin vísaði jafnframt erindi Minjastofnunar til umfjöllunar í menningar- og nýsköpunarnefnd, sem í bókun sinni andmælir mati stofnunnar. Þar segir að húsin séu byggð um 1950, eigi ekkert skylt við önnur hús á svæðinu og séu sem slíkar ekki hluti af mikilvægri heild. Nefndin er heldur ekki sammála því að byggingarmyndin sé sérstæð.

Menningarnefndin mótmælir því einnig sem kemur fram í áliti Minjastofnunar um að húsunum hafi alla tíð verið vel við haldið. Í ástandsskýrslu framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar segir þvert á móti að ástand húsanna sé mjög lélegt og sýnilegt að viðhaldi hafi ekki verið sinnt í langan tíma. Þar er rakið að steypan sé mikið sprungin, járnið ónýtt, rafmagnið komið til ára sinna og ýmislegt annað standist engar nútímakröfur. Því sé hvorki viðgerð né endurbygging fýsilegir kostir.

Menningar- og nýsköpunarnefndin telur mikilvægt að halda til haga atvinnusögu Fjarðabyggðar en það verði „ekki gert með því að vernda allt atvinnuhúsnæði og hamla eðlilegri þróun byggðarlaganna til bóta fyrir þau. Það verður fremur gert með því að sýna atvinnuhætti með aðgengilegum hætti líkt og gert er á söfnum sveitarfélagsins.“

Þá furðar nefndin sig á þeirri afstöðu sem Minjastofnun setur fram í álitinu gagnvart hugmyndum um safnasvæði og vinnu við skipulagi svæðisins en áréttar að fullt samráð verði haft við stofnunina, sem aðrar, verði haft samkvæmt við það ferli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.