„Finnum að taugakerfi fólks er trekkt“

Talsvert álag hefur verið á geðheilbrigðisteymi Heilbrigðisstofnunar Austurlands og aðra sem veita sálrænan stuðning í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði um miðjan desember. Tugir einstaklinga hafa farið í samtöl hjá teyminu.

„Við finnum að taugakerfi fólks er trekkt, sem er skiljanlegt,“ sagði Sigurlín Hrund Kjartansdóttir, yfirsálfræðingur stofnunarinnar á upplýsingafundi fyrir íbúa Seyðisfjarðar á mánudag.

Álagið eykst þegar veður eru vond eða rýma þarf hús á staðnum. Þá sagði hún að áhyggjur um vorið, með tilheyrandi leysingum, væru farnar að hrjá íbúa.

Tugir hafa þegið aðstoð

Læknar, prestar og starfsmenn félagsþjónustu vinna náið með teyminu og koma áfram upplýsingum um fólk sem þarf stuðning til þess. Sigurlín sagði að tugir einstaklinga hefðu farið í áfallaviðtöl, einstaklingsviðtöl eða aðra þjónustu geðheilbrigðisteymisins eftir áföllin.

Hægt er að bóka tíma hjá starfsmanni teymisins í síma 470-3000 á skrifstofutíma. Eftir fyrsta samtal er metin þörfin á frekari samtölum. Bæði er hægt að ræða við starfsmennina í síma eða með myndsamtali ef erfitt er að hittast. Tvær starfsmenn þess eru til staðar á Seyðisfirði á miðvikudögum. Þá er fyrirhugað námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM), sérsnið að afleiðingum náttúruhamfara, á Seyðisfiðri eftir páska.

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, þjónustustjóri almannavarna á Seyðisfirði, sagði að erfitt væri fyrir fólk að upplifa streitu og bjargarleysi. Hún kveðst hafa skynjað mikla umhyggju í samfélaginu á Seyðisfirði og hrósaði íbúum fyrir þrautseigju, úthald og samheldni.

Verið að ná utan um húsnæðismálin

Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, sagði að söfnunarsjóður sem komið var á fót eftir hamfarirnar hefði þegar úthlutað talsverðum fjármunum. Ákveðið hefði verið að bæta þeim sem bera sjálfsábyrgð vegna tjóns helming hennar.

Hún ræddi sérstaklega húsnæðismál þeirra sem annað hvort hafa ekki getað eða kosið að snúa aftur í hús sín á Seyðisfirði þar sem vart hefði verið við óánægju um að húsnæðið væri ekki tryggt nema út febrúar.

Hún sagði að enginn þyrfti að óttast að enda á götunni í byrjun mars, hins vegar gæti Múlaþing ekki lofað húsnæði í annarra eigu. Vandamálið er að sveitarfélagið hefur ekki náð utan um allt það íbúðahúsnæði sem er í notkun á þennan hátt. Sumir hefðu fundið sér húsnæði sjálfir meðan sveitarfélagið hefði hjálpað öðrum og væri nú beðið eftir að fá reikninga frá eigendum alls þessa húsnæðis. Hún hvatti alla sem eru í öðru húsnæði en sínu eigin eftir skriðuföllin til að hafa samband við félagsþjónustuna og láta vita af sér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.