„Er sannfærður um ég hafi ekki hótað forsætisráðherra líkamsmeiðingum“

Íbúi á Seyðisfirði, sem lögregla hafði afskipti af í dag vegna meintrar hótunar í garð forsætisráðherra, kveðst sannfærður um að hann hafi hvorki hótað ráðherranum lífláti né líkamsmeiðingum. Hann segist í áfalli eftir atburði síðustu daga og telur íslensk stjórnvöld ekki hafa staðið sig nógu vel í að tryggja öryggi Seyðfirðinga.

„Ég kom í fjöldahjálparmiðstöðina í hádeginu með fjölskyldunni til að borða, eins og við höfum gert á hverjum degi þegar ég fæ símhringingu frá lögreglunni um Reykjavík. Sá segir mér að haft hafi verið samband við lögregluna vegna þess að ég hafi hótað forsætisráðherra lífláti og það sé maður á leiðinni til að ræða við mig,“ segir Jonathan Moto Bisagni, íbúi á Seyðisfirði.

Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, var í dag komið í skjól í stutta stund í varðskipinu Tý um hádegisbil eftir að hótanir í hennar garð voru kannaðar. Niðurstaðan var fljótt sú að engin hætta væri á ferðum og hélt heimsókn Katrínar, ásamt þremur öðrum ráðherrum til Seyðisfjarðar, áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Hræddur um að vera sviptur öllum réttindum

Jonathan segir að ekki löngu síðar hafi lögreglumenn komið í fjöldahjálparmiðstöðina á Egilsstöðum í leit að honum. Hann kveðst hafa verið hræddur, enda uppalinn í Bandaríkjunum þar sem fólk missi öll réttindi, sé það grunað um að hóta einhverjum lífláti. Hann hafi því þráast við þegar lögreglan kom í miðstöðina og leitað skjóls hjá starfsfólki Rauða krossins. „Í mínu heimalandi er hægt að fangelsa þig ef þú hótar lífi einhvers.“

Jonathan segir lögreglumennina sem komu hafa sagt honum að hann væri ekki handtekinn en hann verið beðinn um að fylgja þeim á lögreglustöðina. Þeir væru ekki ásaka hann um neitt en hótanir hafi borist sem rannsaka þyrfti nánar og það væri ekki hægt að gera í fjöldahjálparstöðinni. Það hafi einnig skeflt hann að hans nánasta fólk var ekki á Egilsstöðum eins og hann heldur niður á Seyðisfirði á þessum tímapunkti.

Lögreglan róleg

Hann kveðst að lokum hafa fylgt lögreglunni og fengið að fara með bíl Rauða krossins frekar en lögreglubíl. Hann segir lögregluþjónana á stöðinni hafa verið rólega. Honum hafi verið sagt að hann fengi lögfræðing en hann kom aldrei. Hins vegar var til staðar félagsráðgjafi sem aðstoðaði Jonathan og fjölskyldu hans við að finna annað hús til að vera í yfir jólin en hann hefur verið í síðan á föstudag.

Hann sagði varðstjórann sem ræddi við hann hafa verið rólegan enda sá verið í aðgerðastjórninni þegar skriðan stóra féll á föstudag og sloppið naumlega. Þar hafði Jonathan haft viðkomu fyrr þann morgunn. „Ég þurfti út eftir í vöruhúsið mitt. Ég færði þeim 20 kg af ávöxtum og grænmeti í stjórnstöðina, þar voru margir menn sem lítið höfðu fengið,“ segir Jonathan sem rekur fyrirtæki sem flytur inn og dreifir ávöxtum og grænmeti.

Skilur ekki hvaðan ásakanirnar koma

Í samtali við Austurfrétt segist Jonathan saklaus af hótunum í garð forsætisráðherra og ekki vita hvernig þær séu til komnar. Hann hefur undanfarna daga verið gagnrýnin á aðgerðir stjórnvalda, einkum fyrir skriðuföllin og látið í sér heyra vegna þess. Þannig kveðst hann hafa hringt í þrjá þingmenn í morgun til að ræða málin.

„Ég er viss um að það séu til upptökur af þessum samtölum mínu. Ég er sannfærður um að ég hafi ekki hótað ráðherra líkamsmeiðinum eða lífláti. Ég veit að ég er með áfallastreituröskun. Ég verð reiður og hávær. Ég á rétt á því en ég hef engan rétt á að hóta lífi þingmanns eða annarra.“

Telur yfirvöld ekki hafa tryggt öryggi íbúa

Jonathan býr í Botnahlíð á Seyðisfirði og var heima, ásamt fjölskyldu sinni, þegar skriða féll ofan við götuna síðasta þriðjudag. Hann segir að lítið hafi verið rætt um þá skriðu, sem var stór, því hún hafi fallið frá íbúabyggðinni.

Hann er hins vegar mjög gagnrýnin á aðgerðir yfirvalda í aðdraganda skriðufallanna á Seyðisfirði. Veðurstofan hefur lýst því að aðstæður þar hafi verið vanmetnar. „Í gær hlustuðum við á vísindamann segja að svona gerðist á mörg þúsund ára fresti. Í fyrra var okkur kynnt nýtt hættumat fyrir svæðið og okkur var sagt að það gæti orðið óstöðugt ef það rigndi mikið. Við vorum hins vegar fullvissuð að það yrði vel fylgst með og svæðið rýmt ef ástandið yrði hættulegt.“

Engin hús voru rýmd fyrr en fyrstu skriðurnar voru fallnar og segist Jonathan hafa frétt það frá nágranna sínum að hann þyrfti að yfirgefa húsið sitt. „Þá fór ég í þennan aðgerðaham. Ég veit að ég glími við áfallastreituröskun og þessi viðbrögð mín eru hluti af því að koma í veg fyrir að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Rýmingaráætlun átti að vera tiltæk þar til önnur framtíðarlausn yrði tilbúin en það virðist ekki hafa verið búið að fullrannsaka svæðið eða skipuleggja rýmingu til fulls.“

Afsökunarbeiðni þörf til að endurheimta traustið

Jonathan er óánægður með að bæði sérfræðingar og ráðamenn vísi í það að veðrið hafi verið einstaklega vont og atburðurinn jarðfræðisögulega einstakur heldur gangist við því að gera hefði mátt meira til að tryggja öryggi Seyðfirðinga.

„Það hefði verið hægt að bregðast við þessu en uppbygging varnarmannvirkja snýst um forgangsröðum og peninga. Mér hefði samt þótt heiðarlegra að í stað þess að kenna veðrinu um hefðu ráðamenn stigið fram og viðurkennt að þeim hefði mistekist því þeir hefðu ekki farið eftir ýtrustu öryggisráðstöfunum.

Það væri mér mikils ef leiðtogarnir okkar viðurkenndi að ekki hefði verið haldið nógu vel á spilunum. Ég geri mistök í mínu fyrirtæki og þá biðst ég afsökunar. Ég held að viðskiptavinirnir kunni að meta það. Það er nauðsynlegt til að endurheimta traustið. Ég er ekki að fara fram á sakamálarannsókn eða afsögn ráðherra, þótt líf fólks hafi verið í húfi.“

Nauðsynlegt að ráðamenn fái sögurnar beint í æð

Jonathan var hjá lögreglu mest allan þann tíma sem ráðherrarnir voru í heimsókn í fjöldahjálparmiðstöðinni. Hann var þó laus og kominn þangað aftur áður en þau fóru í húsi. Leiðir hans og forsætisráðherrans sköruðust samt ekki. Hún og hennar fylgdarlið hitti fjölda Seyðfirðinga bæði í heimahögum og á Egilsstöðum í dag.

„Ég upplifði árásirnar á Tvíburaturnana í New York 11. september árið 2001. Ég var enginn aðdáandi George W. Bush en var ánægður með að hann heimsótti rústasvæðið. Ég hefði viljað að forsætisráðherra kæmi hingað fyrr frekar en horfa á myndir héðan.

Við erum öll uppfull af tilfinningum og það hefði verið betra að hún hefði fengið frásagnir okkar frá okkur sjálfum. Ég var að vona að hún kæmi hingað til að tala við fólkið sem missti heimili sín og myndi meðal annars hitta á mig. Ég var ekkert að fela mig en hún virðist hafa gert það því mér líður eins og það hafi verið níðst á mér í dag. Ég veit samt ekkert hvort það var ráðherrann eða einhver annar sem bað um þessar aðgerðir gegn mér. Ég skrifaði athugasemdir á Facebook hjá henni en ég hótaði henni ekki.“

Getum ekki endalaust treyst á kraftaverkin

Jonathan óttast að ekki verið staðið við fyrirheit við að tryggja öryggi Seyðisfjarðar til frambúðar. „Við erum lítið þorp á Austfjörðum en líf okkar skiptir miklu máli. Ef við erum í þessari hættu er bókað að fleiri þorp eru með hættusvæði þar sem rýmingaráætlanir vantar. Ég vil fá að vita hvort þau séu raunverulega til eða áform um að bæta öryggið. Það verður að vera klár áætlun og helst að íbúum séu afhentar útprentaðar leiðbeiningar um rýmingu til að endurheimta traustið.

Fyrir þremur árum féll skriða sem olli skaða skammt frá vöruhúsinu mínu í utanverðum firðinum. Þar sem enginn dó er auðvelt að gleyma hlutunum en það er ekki í lagi að gera ekki neitt. Við getum ekki endalaust treyst á kraftaverkin.

Mér finnst mikilvægt að sögur okkar Seyðfirðinga komist á framfæri til að við sem þjóð gerum ekki þessi mistök aftur. Mér finnst yndislegt að búa í þessu landi því mér finnst fólkið og leiðtogarnir almennt framsýnir.“

Jonathan er meðal þeirra Seyðfirðinga sem í dag fengu þau tíðindi að þeir gætu ekki farið aftur heim til sín fyrr en í fyrsta lagi 27. desember. „Ég frétti það meðan ég var hjá lögreglunni. Við viljum að sárin grói og við verðum að jafna okkur á þessu sem samfélag. Við viljum fara aftur á Seyðisfjörð – bara ekki í húsið okkar.“

Hótanir ekki metnar hættulegar

Í tilkynningu lögreglu frá í dag segir að eftir samræður við þann, sem borinn hafi verið fyrir hótun í garð forsætisráðherra, hafi engin ástæða verið talin til frekari aðgerða gagnvart honum eða viðbragða að öðru leyti.

„Það komu hótanir og þær voru metnar. Meðan það var gert var varúðar gætt. Niðurstaðan var að ekkert hættulegt væri í gangi og þá kláraðist það,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, í samtali við Austurfrétt síðdeigs. Sigríður Björk var með í ferðinni.

Sigríður sagðist þá hafa þær upplýsingar að rætt hefði verið við manninn í rólegheitunum. Hún kvaðst ekki geta tjáð sig um hvar hótanirnar hefðu verið settar fram en engin hætta hefði verið talin á ferðum. Engar frekari upplýsingar fengust hjá lögreglunni á Austurlandi um hvers eðlis hótanirnar hefðu verið eða hvernig þær hefðu komið fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.