Enginn skipverjanna alvarlega veikur

Enginn þeirra tíu skipverja flutningsskipsins Taurus Confidence, sem greinst hafa með Covid-19 veiruna, eru alvarlega veikir. Vel er fylgst með gangi mála um borð.

Skipið lagðist að bryggju í Mjóeyrarhöfn seinni part laugardags. Skipstjórinn hafði þá látið vita að nokkrir um borð hefðu sýnt væg einkenni veikinda.

Læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð, athuguðu líðan skipverja og tóku sýni úr öllum í 19 manna áhöfninni. Af þeim reyndust tíu með veiruna.

Áhöfnin er öll í einangrun og sóttkví um borð. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, segir engan alvarlegan veikan um borð. Skipverjar hafa tengillið í landi sem þeir láta vita ef staðan breytist en hún hefur verið óbreytt frá því á laugardag.

Ekki er ljóst hvaða afbrigði veirunnar skipverjarnir hafa en verið er að greina það. Skipið var að koma frá Brasilíu þar sem veiran hefur fengið að grassera.

Aðspurður um hvort skipstjórinn hefði átt að láta vita fyrr af veikindum um borð og þá mögulega halda til næstu hafnar svaraði Kristján Ólafur að við fyrstu sýn væri ekki annað að sjá en skipstjórinn hefði hagað sínum vinnubrögðum af samviskusemi. Einkenni skipverja hefðu verið væg og hann látið vita fyrir komuna til Reyðarfjarðar.

Ekki er talin nein hætta á að smitið breiðist út frá skipinu við núverandi aðstæður. Versni líðan einhvers skipverjans svo að flytja þurfi hann frá borði verði það gert í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnayfirvalda. Allir viðbragðsaðilar séu vel upplýstir um stöðuna, vel sé fylgst með líðan og aðstæðum um borð og því ekki ástæða til að ætla annað en allt gangi vel, að sögn Kristjáns.

Ekkert annað Covid-19 smit greindist á Austurlandi um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.