Engin ástæða enn til að kyrrsetja Taurus Confidence

Engin ástæða er enn talin til að fara fram á að flutningaskipið Taurus Confidence verði kyrrsett í Mjóeyrarhöfn. Tíu úr áhöfninni hafa verið greindir með Covid-19.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá í vikunni gaf skipstjóri flutningaskipsins ónákvæmar um ástand skipverja við komuna til Reyðarfjarðar. Samkvæmt lögum ber skipstjórum að láta vita ef hætta er á Covid-19 smiti um borð með tilkynningu á eyðublaði til Landhelgisgæslunnar. Umboðsaðili skipsins stóð sig hins vegar betur sem varð til þess að rétt var brugðist við hvað smitvarnir varða þegar skipið lagðist að bryggju.

Austurfrétt hefur í vikunni reynt að komast að því hvaða lög gilda þegar upplýsingar skipstjóra eru ófullnægjandi. Hjá Landhelgisgæslunni fengust þau svör að hún tæki aðeins við eyðublaði frá skipinu og þar með væri hennar afskiptum lokið.

Hæpið að skipinu verði leyft að fara með veika skipverja

Haffærni skipa er á borði Samgöngustofu. Þar fengust þau svör að málið væri ekki til skoðunar enda ekki á hennar starfssviði. Vaktstöð siglinga tekur við tilkynningum frá skipunum. Austurfrétt hefur sent fyrirspurn þangað en svar liggur ekki fyrir.

Sem fyrr segir hefur Samgöngustofa eftirlit með haffærni skipa og getur krafist kyrrsetningar ef hún er ófullnægjandi. Vafamál er hvort skip teljist haffært ef ljóst er að helmingur áhafnar er mikið veikur.

Hjá stofnuninni fengust þau svör að stofnunin geti kyrrsett erlendis skip sé ástandi þeirra ábótavant. Ekki hafi verið talin þörf á því í tilfelli Taurusar enda sé það sóttvarnamál. Á heimildina geti reynt standi til að fara með skipið frá landinu með veika áhöfn í trássi við fyrirmæli yfirvalda.

Hvað ef upplýsingar skipstjórans eru rangar?

Mál Taurusar er hið annað hérlendis þar sem staðfest er að upplýsingagjöf skipstjóra í faraldrinum hafi verið ófullnægjandi. Hitt var mál togarans Júlíusar Geirmundssonar. Áhafnir farskipa eru undanþegnar reglum um samkomutakmarkanir.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er samgangur áhafna súrálsskipa við annað fólk hérlendis afar takmarkaður. Þó þarf hafnsögumaður að fara um borð. Ófullnægjandi upplýsingar skipstjórans hefðu getað leitt til þess að hann hefði farið um borð án viðhlítandi hlífðarfatnaðar. Litlu mátti því muna síðasta laugardag að hann væri útsettur fyrir smiti.

Hann var settur í sóttkví þar sem hann var ekki bólusettur. Bæði sveitarfélög og hafnasamband Íslands hafa vakið athygli á þessu og hvatt til þess að hafnsögumenn verði færðir framar í forgangshópi bólusetningar. Þá hefði áhöfnin ekki verið skimuð nema fyrir árvekni umboðsaðila og þar með smit ekki greinst.

Austurfrétt hefur spurt sóttvarnayfirvöldum hvort ástæða sé til að herða reglur um komu farskipa eða um smitvarnir fyrir hafnsögumenn, til dæmis með að færa þá framar í forgangshópi bólusetningar. Svör hafa ekki borist en miklar annir hafa verið hjá almannavörnum vegna innanlandssmita.

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er líðan skipverjanna tíu sem veiktust óbreytt, enginn þeirra er alvarlega veikur. Þeir eru í einangrun um borð og ekki talin hætta á að smit berist þaðan í land. Níu aðrir eru í sóttkví um borð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar