Ekki talin hætta í byggð þótt hreyfing mælist í skriðusárinu

Hreyfingar hefur orðið vart ofarlega í sári stóru skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð 18. desember síðastliðinn. Ekki er talin hætta í byggð en varað er við ferðum fótgangandi í hlíðinni undir skriðunni.

Í tilkynningu almannavarna kemur fram að hreyfingar hafi orðið vart á einum af þeim speglum sem notaðir eru til að mæla hreyfingu við upptök skriðunnar. Spegillinn er skammt ofan við innanverð skriðuupptökin.

Þar er bent á að hrun úr bröttu brotstáli stóru skriðunnar á næstu mánuðum þurfi ekki að koma á óvart, það sé hluti af því að jarðlögin leiti jafnvægis á ný eftir hamfarirnar. Hreyfingin nú er talin hluti af því.

Ekki er talin hætta í byggð en sérstakrar varúðar verður gætt við vinnu á skriðusvæðinu. Nýir varnargarðar á svæðinu eru taldir draga úr hættu á að frekari skriðuföll úr upptökum stóru skriðunnar skapi hættu í byggðinni. Rétt þykir að vara við ferðum gangandi í hlíðinni undir upptökum stóru skriðunnar.

Rauntímavöktun Veðurstofu er á mælum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.