Ekki orðið vart við nein veikindi í Nesskóla

Ekki hefur orðið vart við veikindi meðal nemenda eða kennarar í Nesskóla þar sem mygla var staðfest í morgun. Sýni voru tekin eftir ábendingu. Viðgerðir hefjast á mánudag.

Myglan fannst í norðurhluta skólans þar sem unglingastigi, 8. – 10. bekk, er kennt. Stofurnar voru rýmdar um leið og niðurstaða sýnis lá fyrir í morgun.

Marinó Stefánsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar, segir að fundist hafi mygla sem samkvæmt danskri flokkun er ráðlagt að ráðlagt að taka húsnæði úr notkun þar sem hún finnst. Magnið hafi ekki verið mikið en það skipti ekki máli. „Við tökum enga áhættu.“

Marinó segir að ekki hafi orðið vart við nein veikindi hjá nemendum eða starfsfólki en kvörtun hafi orðið til þess að tekið var sýni. Ekki er þó talinn vera leki á svæðinu og myglan á ekki að dreifa sér þegar ekki er raki. Myglan fannst í málningu en einnig aðeins í gólfdúki.

Fyrir tveimur árum var norðurálman klædd og skipt um glugga því þar hafði fundist leki. Síðan hefur verið fylgst með húsnæðinu, meðal annars með myglusýnum.

Búið er að fara yfir stöðuna með sérfræðingum og munu lagfæringar hefjast strax á mánudag. „Við vonumst til að verktakarnir fari langt með það í næstu viku að laga þetta.“

Vegna þessa verður starfsdagur kennara á unglingastigi á mánudag til að skipuleggja starfið framundan og mæta nemendur í þeim bekkjum ekki í skólann. Nánari upplýsingar verða sendar foreldrum í gegnum Mentor. Ástandið í norðurálmunni á ekki að hafa áhrif á starfsemi annars staðar í skólanum og ekki er talið að mygla sér víðar í byggingunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gripið er til aðgerða vegna myglu í Nesskóla. Fyrir fimm árum var farið í umfangsmiklar framkvæmdir vegna myglu í elsta hluta húsnæðisins þar sem tónskólinn var til húsa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.