Ekki nóg að fá aðgerðaáætlun í vor

Bæjarfulltrúi frá Seyðisfirði kallar eftir skjótum svörum frá íslenskum stjórnvöldum um hvað gert verði til að verja byggðina þar fyrir frekari náttúruhamförum. Nauðsynlegt sé að fullvissa íbúa sem fyrst um að öruggt sé að vera á staðnum.

„Ég heyri ekki annað en allir séu boðnir og búnir að aðstoða en það þarf að láta verkin tala. Svörin sem við fengum frá umhverfisráðherra [um að tillögur að ofanflóðavörnum fyrir Seyðisfjörð verði kynntar næsta vor] eru ekki fullnægjandi. Það er ekki nóg að fá aðgerðaáætlun í vor, þótt við skiljum að það þurfi að vinna málið vel. Það er ekki umburðarlyndi fyrir að lappirnar verði dregnar.“

Þetta hafði Hildur Þórisdóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðar og núverandi bæjarfulltrúi í Múlaþingi, að segja eftir heimsókn fjögurra ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar austur í gær. Ráðherrarnir skoðuðu aðstæður og ræddu við heimafólk í kjölfar aurflóðanna sem féllu á bæinn í síðustu viku. Umhverfisráðherra var ekki þar á meðal en von er á honum í janúar.

Þreyttir og ringlaðir

Hildur segir Seyðfirðinga vera að ná áttum eftir það sem gerst hafi í síðustu viku. „Seyðfirðingar eru þreyttir og ringlaðir ásamt því sem þeir eru að reyna að átta sig á stöðunni og næstu skrefum. Þetta er gríðarlegt áfall en það hefur sýnt sig í þessum harmleik að samfélagið er samheldið og fólk heldur vel hvert utan um annað.

Síðustu daga hefur verið unnið hörðum höndum að því að tryggja fólki samastað um jólin. Um 100 íbúar komast ekki heim til sín þar sem enn er talin hætta á skriðum á ákveðnum svæðum og fjöldi fólks treystir sér ekki til að vera í húsum sínum.

Nauðsynlegt að veita upplýsingar áfram

Það var frekar þungt yfir í matsalnum í fjöldahjálpamiðstöðinni á Seyðisfirði í gær. Fólk faðmaðist og spurði hvert annað hvernig það hefði það.

„Það tekur alltaf tíma fyrir svona stóra atburði að síast inn. Nú er mesti dofinn að fara og þá skellur þetta á. Enn er gríðarleg óvissa og margar spurningar. Því er mikilvægt að við vinnum næstu skref hratt og vel.

Það þarf að styðja við fólkið sem missti húsin sín og allt sitt, síðan eru spurning hvað hægt er að gera til að setja upp varnir. Ég hugsa líka að það þurfi að vera upplýsingafundur fljótlega þar sem til dæmis sérfræðingar Veðurstofunnar fari yfir málin, sitt skipulag, verkferla, áhættumat, stöðuna á fjöllunum og upplýsi fólk. Í svona óvissu skiptir máli að fólk sé eins upplýst og hægt er.“

Fjölsóttur upplýsingafundur var haldinn á mánudag en Hildur segir að enn sé ýmislegt eftir. „Ég hef trú á að fólk hafi fengið svör við býsna mörgum spurningum en ég held við þurfum annan fljótlega þar sem farið verður betur yfir stöðuna og veittar meiri upplýsingar um hvernig staðan er uppi á fjöllunum, sprungunum og efnismagninu sem eftir er. Fólk er óttaslegið og það er mjög eðlilegt.

Þetta þarf til að fólk missi ekki trúna á staðnum. Þetta er einstakt samfélag en fólk þarf að finna öryggi hér. Þá tilfinningu þarf að byggja upp aftur.“

Óttast Hildur að fólk hugsi sér til hreyfings eftir atburðina. „Já, ég held að það sé einhver hluti sem hugsi þannig. Það er fólk sem er hrætt við að fara heim, fólk sem býr á hættusvæðum og ég skil það mjög vel. Þess vegna þurfum við að leysa þessi mál eins hratt og mögulegt er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.