Einn skipverji fluttur suður

Einn skipverja af súrálsskipinu Taurus Confidence, sem greinst hafa með Covid-19, var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi í dag eftir að líðan hans versnaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Þar segir að einkennin hafi versnað þannig að rétt hafi þótt að flytja skipverjann til öryggis á Landsspítalann.

Flutningurinn hafi verið í samræmi við fyrirfram ákveðið skipulag og gengið snurðulaust fyrir sig. Ekki er talin hætta á að smit geti dreifst út fyrir flutninginn.

Ástand þeirra níu sem enn eru um borð með smit telst stöðug. Þá verður sýni tekið úr þeim níu sem ekki hafa greinst með veiruna á morgun. Niðurstaða ætti að liggja fyrir annað kvöld eða þriðjudagsmorgun. Í tilkynningunni kemur fram að síðan skipið kom til Reyðarfjarðar síðasta laugardag hafi allt verið gert sem hægt er um borð til að koma í veg fyrir að smit berist á milli manna.

Þess utan eru fimm einstaklingar í einangrun með veiruna á Austurlandi. Allir tilheyra sama vinnuhópnum. Þorri hans kom með Norrænu til Seyðisfjarðar síðasta þriðjudag, fimm reyndust smitaðir þar en einn með gamalt smit og er hann frjáls ferða sinna.

Það sama gildir ekki um félaga hans sem kom til landsins með flugi og greindist með smit í seinni skimun, fimm dögum eftir komuna. Sá er í einangrun en var áður í sóttkví. Ekki er talin hætta á að smit berist út frá hópnum. Aðrir úr hópnum eru í sóttkví þar til þeir fara í seinni skimun í byrjun vikunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.