„Dýrmætt hvað fólk er hjálpsamt“

Sálrænn stuðningur verður til staðar í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins á Egilsstöðum meðan þurfa þykir fyrir íbúa Seyðisfjarðar sem yfirgefa þurftu bæinn í dag vegna skriðuhættu.

„Þetta hefur gengið vel. Fólk kom til að fá sér að borða og var afar þakklátt fyrir velvilja allra sem koma að málum.

Rauði krossinn er líka afar þakklátur fyrir hvað fólk var tilbúið að hjálpa til. Það er mjög dýrmætt hvað fólk er hjálpsamt,“ segir Sigríður Herdís Pálsdóttir, hópstjóri í áfallateymi Rauða krossins í Múlasýslum.

Búið er að koma öllum Seyðfirðingum í gistingu. Gististaðir á Héraði opnuðu í kvöld auk þess sem fyrirtæki tryggðu nauðsynjar.

Sjálfboðaliðar með þjálfun í áfallahjálp tóku á móti fólkinu á Egilsstöðum og verða þar til staðar um helgina. „Fólk er náttúrulega í áfalli en við vorum ekki að tala ítarlega við það. Við vorum á staðnum til að taka á móti því og láta því líða vel.“

Opnað verður í fjöldahjálparmiðstöðinni klukkan 8:30 í fyrramálið. Þar verður í boði morgunmatur ásamt fulltrúum áfallateymis. Sólarhringsvakt er í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Þangað er hægt að hringja eftir aðstoð og er símtölum vísað í þann farveg sem þurfa þykir. „Ef einhver þarf á að halda þá erum við til taks,“ segir Sigríður Herdís.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.