Dýralæknaþjónusta á að vera tryggð

Matvælastofnun telur að dýralæknaþjónusta eigi að vera vel tryggð á Austurlandi þrátt fyrir breytingar sem urðu á vaktsvæðum dýralækna í lok síðasta árs.

Vaktsvæðum dýralækna breyttust um síðustu áramót þannig að svæðið milli Vopnafjarðar og Djúpavogs er nú skilgreint sem eitt vaktsvæði í stað tveggja áður. Á móti fellur svæðið sunnan Djúpavogs undir Höfn.

Gagnrýnt hefur verið að með þessu sé dregið úr þjónustu við bændur og gæludýraeigendur auk dýraverndar þar sem vaktsvæðið sé orðið heldur stórt til að því verði sinnt með góðu móti. Þá hafi vakthafandi dýralæknum á miðsvæðinu við þetta fækkað úr tveimur í einn. Þegar þjónustusamningar voru endurnýjaðir varð niðurstaðan sú að enginn dýralæknir með þjónustusamning er nú starfandi sunnan Fagradals.

Breytingarnar sem urðu um áramótin byggja á reglugerðarbreytingu atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem gekk í gildi síðasta vor, nema áhrifunum eystra var frestað til áramóta. Reglugerðin var gerð að fengnum tillögum nefndar sem ráðherra skipaði til að endurskoða fyrirkomulag dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum með það að markmiði að tryggja dýralæknaþjónustu um allt land eins og mögulegt væri út frá þeim fjárheimildum sem til staðar væru.

Í svari MAST við fyrirspurn Austurfréttar segir að tillaga hafi verið gerð um að sameina tvö vaktsvæði en ekki fækka dýralæknum eða flytja þá frá einum stað til annars.

Þegar samningur um dýralækna sé laus sé auglýst eftir dýralæknum og síðan samið við þá eftir almennum stjórnsýslureglum með það að markmiði að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr.

Dýralæknarnir ráði hvar þeir búi en skyldan á þeim sé sú sama, að sinna dýralæknaþjónustu á svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.