Dregið úr sýnileika viðbragðsaðila yfir jólin

Dregið verður úr aðgerðum í kjölfar skriðfallanna á Seyðisfirði næsta til að gefa bæjarbúum frið til að halda jól. Aðgerðir hófust í dag til að varna frekara tjóni af völdum lausamuna á hamfarasvæðinu. Viðbragðsaðilar sem staðið hafa í eldlínunni undanfarna viku fá frí eftir daginn í dag.

„Ég myndi segja að staðan væri þokkaleg. Við höfum undanfarna daga unnið markvisst að undirbúningi hreinsunarstarfs auk þess að aðstoða Rarik og aðra sem hafa verið að finna að grunnstoðunum.

Við höfum aflétt rýmingu hægt og rólega samhliða því að þjónusta íbúa síðustu tvo daga við að komast heim og sækja það sem til þarf til að halda lífinu áfram.“

Þetta sagði Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi og vettvangsstjóri á Seyðisfirði um stöðuna þar í dag. Til þessa hefur vart verið talið óhætt að vinna neitt á skriðusvæðinu, utan þess að starfsmenn Rarik hafa skotist þangað til að huga að raflögnum og fjarskiptum.

Hugað að Angró

Í dag fór hins vegar fjögurra manna hópur inn á svæði Tækniminjasafnsins til að huga að Angró, einni þeirra bygginga sem enn stendur þótt löskuð sé. „Þessi hópur skoðar hvað gera þarf til að verja Angró og í framhaldi verður vinna þar á morgun. Eins erum við að skoða hvað gera þarf til að verja aðrar byggingar sem fóru illa.

Við erum komin með loðnunætur frá Síldarvinnslunni sem notaðar verða til að fokverja það sem við teljum þurfa að fokverja. Það er forgangur til að bærinn fái ekki yfir sig brak. Við kunnum Síldarvinnslunni bestu þakkir fyrir að bregðast vel við, fyrirtækið hefur stutt okkur frá fyrsta degi.“

Ró um jólin

Jens segir að frá aðfangadegi og fram yfir helgi verði dregið úr umstangi í bænum. „Ég geri ráð fyrir að á aðfangadag og jóladagana verðum við með mjög lágstemmda starfsemi, svo framarlega sem ekkert kemur upp sem bregðast þarf við. Lögregla verður hér og slökkvilið en ég á ekki von á öðru starfsfólki hér við vinnu. Síðan tökum við aftur upp þráðinn milli hátíðanna.

Ég ímynda mér að við verðum mjög lítið sýnileg þessa daga. Fyrir þá bæjarbúa sem komnir eru og ætla að halda jól þá verða þau ekki mjög gleðileg er viðbragðsbílar eru stöðugt brunandi framhjá húsinu þeirra. Það þarf ekki stöðugt að vera að minna fólk á þennan viðburð.“

Skipt um fólk eftir vikutörn

Jens hefur staðið vaktina á Seyðisfiðri síðan fyrstu skriðurnar féllu þriðjudaginn fyrir viku. Hann fer líka heim um hátíðarnar. „Ég fer í hvíld eftir daginn í dag, sem og allir þeir björgunarsveitarmenn og aðrir viðbragðsaðilar sem staðið hafa vaktina með mér. Við hugsum um þetta. Það er komin vika á miklu stressi, adrenalíni og litlum svefni.

Ég er nokkuð góður. Ég hef það fram yfir Seyðfirðingana, sem hafa unnið með mér allan þennan tíma, að ég keyri heim í mitt örugga hús. Ég get ekki sett mig í spor þeirra að þurfa að sjá bæinn minn í þeirri óvissu sem þeir hafa horft upp á. Ég hef hins vegar séð og fundið hvernig þeir þyngjast dag frá degi og geri mér grein fyrir að þetta eru mjög erfið spor fyrir Seyðfirðinga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.