Búið að opna í gegnum skriðuna

Vinnutæki sem hafa verið að moka í gegnum skriðuna, er féll á utanverðan Seyðisfjörð föstudaginn 18. desember, eru komin í gegnum hana og þar með út fyrir. Vegurinn er enn ófær venjulegum bílum og lagst gegn því að aðrir en þeir sem vinna á svæðinu séu þar á ferðum. Hætta vegna skriðufalla er þó talin minnkandi.

Það var síðdegis í gær sem vinnutækjunum tókst að komast í gegnum skriðuna og út fyrir á svæði Tækniminjasafns Austurlands, sólarhring fyrr en upphaflega var vonast til að það tækist.

Vegurinn eftir Hafnargötu telst þó enn ófær en áfram er unnið að hreinsun hennar. Stefnt er að því gatan opnist fyrir almenning á morgun og þá verði óhætt að keyra í gegnum hana þannig að atvinnustarfsemi utan við hana komist í gang á ný.

Mælst er þó til þess að almenningur sé ekki á svæðinu að óþörfu þar sem svæðið sé ekki fyllilega öruggt, meðal annars því stór vinnutæki eru þar enn að athafnasig.

Skriðan var um fjögurra metra þykk þar sem hún var þykkust en mestan tíma tók að moka í gegnum brak úr Silfurhöllinni, skrifstofuhúsnæðinu að Hafnargötu 28.

„Brakið þar tafði fyrir en eftir að við vorum komin yfir ákveðna rennu fannst ekkert meira af því. Eftir það var bara mold í skriðunni sem er mun þægilegri fyrir okkur til að vinna með. Það er hins vegar meira brak á þessu svæði, við eigum eftir að fara upp og niður fyrir þessa rennu,“ segir Jens Hilmarsson, vettvangsstjóri.

Áfram eru aðstæður í kringum skriðusárin könnuð og athuguð hætta sem stafar af grjóti sem stendur upp úr henni. Stöðugt og kalt veðurfar síðustu daga hafa dregið úr hættunni á frekari skriðum og er að sögn Jens nú til skoðunar að lækka viðbúnaðarstig af hættustigi niður á óvissustig. „Við teljum þróun vettvangsins vera þannig að þetta séu eðlileg skref,“ segir Jens.

Hann er ánægður með hvernig hreinsunarstarfið hefur gengið. „Okkur fannst metnaðarfullt að komast í gegnum skriðuna í gær og ég er ánægður með að það hafi tekist, sem og alla þá vinnu sem hér er unnin af yfirvegun, skynsami og metnaði.“

Í dag eru á svæðinu stjórnendur frá Þjóðminjasafni Íslands, Minjavernd og Minjastofnun ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Þau fara meðal annars í gegnum skriðuna út á svæði Tækniminjasafnsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.