Búið að moka framhjá Silfurhöllinni

Vonast er til að vegurinn út í gegnum Seyðisfjörð verði opnaður um helgina. Seinlegt var að moka framhjá skrifstofuhúsnæðinu að Hafnargötu 28 en eftir það gengur verið hraðar þótt skriðan sé þykk.

„Við komin í gegnum Silfurhöllina. Það var mikið brak í henni og verkið því seinlegt. Í húsinu var steypt milliplata sem við vorum lengi að komast í gegnum.

Nú erum við í hreinu efni og því gengur verkið hraðar þótt skriðan sé mjög þykk. Mér er sagt hún sé fjórir metrar,“ segir Hugrún Hjálmarsdóttir, umhverfis- og framkvæmdastjóri Múlaþings.

Forgangsmálið er að opna Hafnargötuna til en fyrir utan skriðuna er meðal annars frystihús Síldarvinnslunnar ásamt bæði íbúðarhúsum og fleiri fyrirtækjum. Hugrún segir áætlanir gera ráð fyrir að það takist um helgina.

Til að flýta fyrir verkinu er björgunarhópur að störfum á svæði Tækniminjasafnsins. Sá tínir brak úr skriðunni til að hraðar gangi að moka henni í burtu þegar tækin komast á svæðið.

Samhliða þessu er hreinsunarvinna enn í gangi við gamla Austurveg auk verðmætabjörgunar úr húsum við Hafnargötu.

Þá er unnið við að koma Búðaránni aftur í sinn gamla farveg og öðru vatni sem kemur niður í innri hluta skriðunnar, til að mynda þannig að ekki renni yfir veginn. Hugrún segir að það muni taka nokkra daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.