Búið að koma öllum Seyðfirðingum í gistingu

Búið er að koma öllum íbúum Seyðisfjarðar í gistingu eftir að rýma þurfti bæinn vegna skriðuhættu í dag. Á sjötta hundrað manns gerðu vart við sig í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í grunnskólanum á Egilsstöðum.

„Staðan hér núna er að mér sýnist vera komið öllum í hús þannig enginn þurfi að gista hér. Hér eru núna 20-30 manns frá Seyðisfirði og svo fólk frá viðbragðsaðilum,“ segir Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar hjá Rauða krossinum í Múlasýslum.

Gistiaðilar á svæðinu, svo sem Valaskjálf, Hótel Hallormsstaður og Tehúsið opnuðu dyr sínar fyrir Seyðfirðingum. Þá hefur Hótel Keflavík boðið bæjarbúum að dvelja þar frítt yfir jólin. „Fólk hefur farið inn á hótel, gistihús, heimahús eða bústaði vítt og breitt um svæðið. Sumir redduðu sér á eigin vegum en við vorum með fólk sem vissi hvar var pláss,“ segir Margrét Dögg.

Allir þurfa að láta vita af sér

Allir þeir sem voru á Seyðisfirði í dag þurfa að láta vita af sér við komuna í Egilsstaði, annað hvort í miðstöðinni eða í hjálparsíma Rauða krossins 1717 og gera grein fyrir hvar þeir dvelji í nótt. Margrét Dögg segir að um 550 manns hafi skráð sig inn í miðstöðinni í kvöld.

Þar var tekið á móti fólki með mat. „Hér var í boði súpa fyrir þá sem komu. Það stóðu allir saman. Nettó var með opið lengur og Fellabakarí gaf okkur kassa af brauði.“

Fjöldahjálparmiðstöðin var virkjuð um klukkan 16 en fyrstu Seyðfirðingarnir komu inn um klukkutíma síðar. Mest var að gera í móttökunni milli frá klukkan 18-19:30.

Boðið upp á sálrænan stuðning

Miðstöðin verður opin eins lengi og þurfa þykir í kvöld. Þar verður einnig boðið upp á morgunmat í fyrramálið, heitan mát í hádeginu og svo áfram eftir því sem þurfa þykir. Þar er einnig sálrænn stuðningur og er búið að skipuleggja vaktir fyrir helgina þannig alltaf sé einstaklingur til staðar sem lokið hefur námskeiði til að veita stuðning.

„Okkur hefur gengið ágætlega. Hér hafa verið sjálfboðaliðar úr viðbragðshóp sem veitir sálrænan stuðning og áfallahjálp, auk presta sem hafa tekið stöðuna. Fólk er slegið því það veit ekki stöðuna eða næstu skref. Sumir eru brattir, aðrir síður,“ segir Margrét Dögg.

Þá hefur það heldur flækt vinnuna í miðstöðinni að þurfa að gæta að smitvörnum vegna Covid-19 faraldursins. „Við þurftum að passa fjarlægð milli skráningarborðanna og svo að hafa grímur og spritt til taks, ofan á allt annað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.