Bæjarfulltrúar deildu um loftslagsbreytingar og trúmál á fundi um málefni Seyðisfjarðar

Snörp orðaskipti áttu sér stað milli bæjarfulltrúa í Múlaþingi á aukafundi bæjarstjórnar um stöðuna á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna í desember. Snerran varð ekki út af vinnunni á Seyðisfirði heldur trúmálum og loftslagsmálum.

Það sem kveikti í umræðunni voru orð Jódísar Skúladóttur, bæjarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, um að skriðuföllin hefðu ekki orðið til í tómarúmi heldur væri afleiðing hamfarahlýnunar.

Hún sagði stöðuna ekki lengur þá að afleiðingarnar lentu á næstu kynslóðum heldur þeirri sem nú er uppi og þyrfti strax að axla ábyrgð á loftslags- og umhverfismálum. Þar ætti sveitarfélagið Múlaþing að vera leiðandi.

Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, svaraði að ekki væri við hæfi að bæta loftlagskvíða ofan á vandamál Seyðisfjarðar áður en hann fullyrti að rangt væri að tala um hamfarahlýnun.

„Ný og gömul gögn benda til þess að muni kólna en ekki hlýna næstu 30 árin. Það er verið að misnota aðstöðu sína hér til að koma þessu á framfæri. Þetta eru pólitísk vísindi en ekki vísindi,“ sagði hann.

„Mér finnst að mér vegið með að segja að ég sé í pólitískum blekkingarleik. Ég er lögfræðingur með sérhæfingu í umhverfismálum og starfaði að þeim hjá Umhverfisstofnun. Ég læt ekki þagga niður í mér eða smætta umræðuna, um eitt af stóru málunum.

„Þetta eru vísindalegar staðreyndir. Ég læt ekki einhvern sem hefur mál sitt á því að það sé bænahring í Reykjavík að þakka að ekki fór verr segja mér að ég sé að fara með þvælu,“ svaraði Jódís.

Hún vísaði til þess sem kom fram í fyrstu ræðu Þrastar á fundinum en hann hóf mál sitt á að segja frá því að hann hefði heyrt af bænahópi í Reykjavík sem hittist á hverjum morgni. Þrátt fyrir að hópurinn hefði engin tengsl við Seyðisfjörð hefði það komið mjög sterkt til hans að morgni 18. desember að biðja fyrir Seyðisfirði.

„Ég er hæddur og spottaður fyrir að nefna nafn Jesú. Það kemur mér ekki á óvart því það stendur líka í Biblíunni. Ég ætla ekki að fara í stórdeilur út af þessu. Það eru góð tíðindi að það muni kólna og ég hvet fólk til að kynna sér þau gögn sem eru að koma í ljós um dvínandi sólaráhrif,“ svaraði Þröstur.

Hildur Þórisdóttir, bæjarfulltrúi Austurlistans, blandaði sér í umræðuna, Jódísi til stuðnings. „Ég vil mótmæla þeim orðum að Jódís hafi misnotað stöðu sína. Það eru blákaldar staðreyndir að við erum að horfa upp á breytingar í veðrakerfunum. Vísindamenn hafa bent á það en stjórnmálamenn hafa ekki hlustað á það því það hentar ekki stórfyrirtækjunum.“

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa á að hlýnun jarðar geti skapað aukna skriðuhættu. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir að hlýrra loftslag hafi síðustu áratugi haft í för með sér umtalsverða aukningu úrkomu á Íslandi og auka líkur á vetrarflóðum. Þá virðast loftlagsbreytingar einnig auka líkurnar á aftakaúrkomu auk þess sem hlýnunin getur losað um þýðu í fjallshlíðum og þannig skapað óstöðugleika.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.