Austfirskir listamenn á List í ljósi

Aðeins austfirskir listamenn eiga verk á listahátíðinni List í ljósi, sem hefst á Seyðisfirði í kvöld. Skipuleggjandi hátíðarinnar segir að meiri nánd muni ríkja á henni en áður.

„Þetta verður náin heimahátíð. Það eru bara listamenn og menningarstofnanir héðan frá Seyðisfirði og nágrenni sem taka þátt.

Það verður heldur ekki genginn hringur í bænum heldur verður Austurvegurinn sýningarleiðin, frá Herðubreið að Skaftfelli. Á þessari leið verða þó nokkur verk.

En það verður meiri nánd á hátíðinni heldur en verið hefur,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Dagskrá hátíðarinnar hófst reyndar í gær með frumsýningu heimildarmyndar um starfsemina sem var áður í húsunum sem Tækniminjasafn Austurlands hefur starfað í síðustu ár. Tekin voru viðtöl við fólk sem starfaði í húsunum. Samhliða List í ljósi verður líka haldin kvikmyndahátíð með 56 myndum og myndskeiðum frá sjálfstæði kvikmyndagerðarfólki um allan heim.

Kveikt verður á listaverkunum í kvöld klukkan 18:00 og verða þau í gangi til 22:00. Í fyrra setti bylur strik í dagskrána og um helgina er spáð hvassviðri og úrkomu. „Það er spáð rigningu á laugardag og þá eigum við að sleppa. Við höfum líka lært og fært tækin sem varpa frá sér verkunum inn í hús,“ segir Sesselja.

Eins verður í kvöld opnað útigallerí sem sett hefur verið upp á Seyðisfirði í samvinnu Listar í ljós og LungA skólans. Gert er ráð fyrir að það standi til framtíðar og verði til staðar fyrir listastofnanir á Austurlandi.

Þá hefur verið prentuð út verk eftir þá listamenn sem sýna á hátíðinni í ár og verða þau borin út sem listagjöf til Seyðfirðinga yfir helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.