Austfirðingar hvattir til að kynna sér nýjar sóttvarnareglur vel

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hvetur íbúa fjórðungsins til að kynna sér vel nýjar sóttvarnareglur sem tóku gildi á miðnætti og gilda fram til 15. apríl.

Stærsta breytingin er að ekki fá fleiri en tíu einstaklingar að koma saman. Þá eru íþróttasvæði lokuð, skólar aðrir en leikskólar og krár.

Veitingastaðir eru opnir og geta tekið á móti allt að tuttugu gestum. Aðgerðastjórnin telur hólfaskiptingu veitingastaða, til þess að geta tekið við fleirum gestum óheimila. Allir gestir skulu vera í númeruðum sætum undir nafni, kennitölu og símanúmeri. Veitingastaðir mega hafa opið til klukkan tíu að kvöldi en nýir gestir mega ekki koma inn eftir klukkan níu.

Aðgerðastjórnin hvetur fyrirtæki og stofnanir til að nota tækifærið og rýna starfsemina vel með nýju reglugerðina í huga og gera allar þær ráðstafanir sem þarf til að tryggja að eftir henni sé farið. Í því sambandi er hvatt til samtals og samvinnu við starfsfólk þar sem reglurnar eru kynntar og farið yfir það sameiginlega hvernig best verði farið eftir þeim og réttast.

„Í stuttu máli erum við komin á fornar slóðir fyrri bylgna faraldursins með þeim ströngu reglum er þá giltu. Helstu breytingarnar lúta að óformlegum leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda varðandi ferðalög. Þó ekki sé beinlínis hvatt til þeirra utanhúss að þessu sinni þá er áherslan ekki heldur á ferðalag innanhúss líkt og var um síðustu páska.

Þess í stað er lagt fyrir fífldjarfa ferðalanga sem hyggjast leggja í hann að fara þá ofurvarlega á ókunnum lendum. Í því felst að halda sínum ranni þétt að sér og öðrum frá, sem og að gæta að persónubundnum sóttvörnum; tveggja metra reglu, grímunotkun, handþvotti og sprittun snertiflata,“ segir í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag.

„Förum varlega hvar sem við erum og brokkum þannig hnarreist gegnum þennan skafl líkt og aðra sambærilega er fyrir okkur hafa orðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.