Athugunarmenn sáu sprungurnar gliðna og lengjast

Daglegar mælingar eru hafnar á sprungum sem mynduðust í veginum upp Oddsskarð í miklu vatnsveðri á föstudag. Áhersla er lögð á að safna gögnum þannig að vinna megi nýtt hættumat fyrir byggðina. Sprungurnar stækkuðu hratt á föstudag.

Á íbúafundi um málið í gær lýstu snjóflóðaeftirlitsmennirnir Sævar Guðjónsson og Hjalti Sigurðsson hvernig þeir hefðu horft upp á sprungurnar stækka seinni part föstudags.

„Við verðum varir við þær um klukkan þrjú. Um tveimur tímum seinna sjáum við að þessar örmjó sprungur eru orðnar stórar. Þær voru enn að lengjast meðan við vorum þarna. Þær áttu sér engan aðdraganda, við vorum ekkert búnir að horfa á þær í heilan dag,“ sagði Hjalti.

„Við sjáum þær stækka meðan við erum þarna. Neðri sprungurnar sáust daginn áður. Þær hreyfðust ekki mikið í upphafi en á ákveðnum tímapunkti víkkuðu allar sprungur hratt,“ sagði Sævar.

Rýmingin fumlaus af allra hálfu

Strax í kjölfarið var ákveði að rýma hús á svæðinu neðan vegarins. Kristján Ólafur Guðnason sagði það hafa fengið mjög vel. „Við fengum tilkynninguna um klukkan 17:30. Í beinu framhaldi var haft samband við aðgerðastjórn og hún tilbúin til verka á um 20 mínútum.

Klukkan 18:03 fer tilkynning til fjölmiðla frá almannavarnadeild um það sem var í gangi á Eskifirði. Á sama tíma erum við tilbúin með fjóra tveggja manna hópa lögreglu- og slökkviliðsmanna sem fóru um svæðið sem þurfti að rýma, bönkuðu upp á í hverri íbúð, leiðbeindu um hvað gera þurfti og róuðu fólk ef þörf var á.

Rýmingin sjálf gekk ótrúlega vel. Við náðum að fara í öll hús á um 30 mínútum eftir að farið var af stað. Svo var farin önnur yfirferð um klukkustund síðar til að tryggja að allir væru farnir og sannreyna að allt væri með felldu. Rýmingin var fumlaus af allra hálfu, bæði þeirra sem sáu um hana og þeirra sem þurftu að rýma.“

Kristján Ólafur svaraði á fundinum fyrir SMS-skilaboð sem send voru en virðast ekki hafa borist öllum. Hann sagði það hafa verið að tæknilegum örðugleikum sem mikilvægt væri að heyra af til að geta brugðist við.

Sprungur á tveimur stöðum

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands, fór yfir stöðuna, aðgerðir framundan og aðdragandann. Skriðuhættan skapaðist í kjölfar úrhellis rigningar. Dagana 9. – 18. desember mældist úrkoma á Eskifirði 480 mm, en mest var hún 14. – 16. desember. Til fjalla féll hún sem snjór en rigning í byggð. Þá var úrkoman enn meiri í utanverðum firðinum.

Vegna þessa sendi Veðurstofan frá sér stigvaxandi aðvaranir þessa daga. Þann 16. desember var íbúum við Grjótá og Lambeyrará ráðlagt að hafa varann á vegna hættu á aurskriðum, sofa ekki í kjallara eða við glugga á efri hæðum og vera ekki mikið utan húss þegar læti væri í ánum. Daginn eftir var sannreynt hvor bærinn Högnastaðir með utanverðum firðinum væri ekki mannlaus enda féll stór skriða á þekktu skriðusvæði við Innstekk morguninn eftir. Fleiri litlar skriður féllu á Eskifirði þessa daga.

Mat veðurstofunnar var að hættan væri helst á skriðum í neðri hluta hlíða, einkum að þær færu í farvegi ánna. Þá var sérstaklega horft á hættuna utan við bæinn.

Sem fyrr segist sáust sprungur á tveimur stöðum í veginum upp Oddsskarð, ofan byggðarinnar, síðdegis þann 18. desember. Þær héldu áfram að gliðna og lengjast þar til morguninn eftir. Vegna óvissu um þær var ákveðin tekin um rýmingu.

Daglegar mælingar hafnar

Harpa sagði að það góða við sprungurnar væri að auðvelt væri að komast að þeim og fylgjast með. Þá hefur síðan á föstudag verið fylgst vel með, sérfræðingar hafa komið á svæðið, það myndað með flygildum auk þess sem mælitækjum var bætt við. Í gær var í fyrsta sinn mælt með alstöð og í dag verður fyrsta sinn hægt að greina mun milli daga á þeim.

Harpa sagði að svo virtist sem tvö afmörkuð svæði væru á hreyfingu þar sem hallinn væru mestur í gömlu framhlaupi. Litlar skriður eru áður þekktar á svæðinu. Sprungurnar eru staðbundnar og svæðið því ekki stórt. Hlíðin er talin stöðug því vatnsþrýstingur hefur minnkað.

Gerðar verða daglegar mælingar á svæðinu fram yfir jól, bæði með athugun á yfirborði og alstöðinni. Í sumar verður skriðflötur greindur með borunum. Eftir þessar rannsóknir verður ákveðið endurskoða þurfi hættumat fyrir svæðið, en svæðið sem rýmt var er að mestu utan núverandi hættumats sem einskorðast nær eingöngu við árfarvegina á Eskifirði.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði að lykilatriði væri að vinna nýtt hættumat því nýr veruleiki blasti við vegna hættunnar á skriðuföllum. Þá hefði hann notað tækifærið á stuttum fundi með ráðherrum sem heimsóttu Austfirði í gær til að hnykkja á því að lokið yrði við fyrirhugaðar ofanflóðavarnir. Framkvæmdir við Lambeyrará eru að hefjast en Jón Björn sagði varnir í þeim þremur árfarvegum sem til staðar eru hafa virkað.

Þjónustumiðstöð veitir stuðning

Ingibjörg Ómarsdóttir frá almannavörnum sagði að þjónusta miðstöðvar sem sett hefur verið upp á Seyðisfirði einnig standa Eskfirðingum til boða. Meðal annars er þar að finna sálrænan stuðning og fræðsluefni.

„Við getum fundið fyrir einkennum í margar vikur sem við erum ekki vön. Það þarf að þekkja hvernig sú líðan er og hvernig er rætt um hana. Við þurfum líka að þekkja hana hjá börnunum okkar. Þetta skiptir máli í atburðum sem eru alvarlegir, þótt þeir fari vel.“

Hægt er að hafa samband við þjónustumiðstöðina í síma 839 9931 og í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Opnunartími hennar næstu daga er sem hér segir:

23. desember, klukkan 11 – 18
27-30. desember, klukkan 11 – 18
31. desember, klukkan 11 – 13

Mynd: Sverrir Albertsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.