Ásmundur Einar: Strandar ekki á okkur ef þörf er á frekari aðgerðum

Í dag var undirritað samkomulag um að Bríet, leigufélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, muni byggja sex íbúðir fyrir sumarið á Seyðisfirði. Félagsmálaráðherra segir byggingu húsanna aðeins fyrsta skrefið, fleiri áform séu til staðar til að styðja við uppbyggingu húsnæðis í bænum í kjölfar skriðufallanna í desember.

„Það var búið að ákveða að byggja tvær íbúðir. Um leið og fréttir bárust af eyðileggingunni hafði ég samband við sveitarstjórann og tjáði honum að við værum tilbúin að nota þau úrræði sem við hefðum til að styðja við uppbygginguna hér á svæðinu.

Nú í janúar hefur verið í gangi samtal milli ráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Bríetar og sveitarfélagsins um hvernig það gæti orðið og afraksturinn er þessi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Gert er ráð fyrir að íbúðirnar sex rísi við Hlíðarveg og verði 80-100 fermetrar að stærð hver. Ekki er búið að fullmóta hvernig þær verða en Ásmundur Einar segir að það sé næsta skref.

„Hvort þetta verður parhús eða raðhús ræðst meðal annars af lóðamálum. Bríet og sveitarfélagið ganga frá því. Af hálfu ríkisins er búið að taka frá fjármagn, næst reynir á hvort hægt sé að hraða skipulagi, auglýsa eftir samstarfsaðilum þannig að hægt verði að flytja inn á vordögum.“

Fleiri íbúðir á teikniborðinu

Á undanförnum misserum hafa orðið miklar breytingar á æðstu stjórn húsnæðismála. Í byrjun árs tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við af Íbúðalánasjóði og segir Ásmundur að með þeirri breytingu hafi ríkið verið komið með í hendurnar stjórntæki sem hægt sé að nota við aðstæður eins og nú eru uppi á Seyðisfirði.

Bæjarfélagið var valið sem eitt af tilraunasveitarfélögum í húsnæðisuppbyggingu og í gegnum það verkefni var búið að ákveða að byggja átta íbúðir í búsetukjarna fyrir 55 ára og eldri. Ríkið kemur því alls að uppbyggingu 14 íbúða á Seyðisfirði.

„Það verkefni er í undirbúningi. Síðan hafa aðilar sýnt á að byggja á Seyðisfirði og nýta til þess úrræði sem stjórnvöld hafa skapað á þessu kjörtímabili, eins og sérstakan lánaflokk til bygginga á landsbyggðinni og hærri stofnframlög til bygginga þar.“

Tilbúin til frekari stuðnings

Í samkomulaginu, sem undirritað var í dag, er einnig kveðið á um frekari aðkomu ríkisins í húsnæðismálum á Seyðisfirði.

„Hér hafa bæði eyðilagst hús alveg og svo eru hús sem ekki má lengur búa í þannig þetta kallar á vinnu í húsnæðismálum. Í framhaldinu munu Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Múlaþing og eftir atvikum ráðuneytið setjast sameiginlega yfir húsnæðismálin. Það verður fylgst með vinnu við hættumat og tryggt að húsnæðisuppbygggingin haldist í hendur við það sem kemur út úr því.

Þessar sex íbúðir eru bráðaaðgerð, síðan þarf að fylgja henni eftir þannig að ekki komi niðursveifla í uppbyggingu. Mín áhersla hefur verið sú að stjórnvöld grípi hér sterkt inní málin og það mun ekki stranda á okkur að grípa inn í með frekari aðgerðum ef þörf er talin á.

Við höfum tekið frá á annan tug milljóna króna sem við setjum inn í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Bríeti til að styðja sérstaklega við umfram þessa uppbyggingu. Hér eru fjölskyldur sem hafa misst allar sínar eigur í þessum hamförum og þetta fé er eyrnamerkt í stuðning við þær. Það verður unnið í samvinnu stofnunarinnar, sveitarfélagsins og viðkomandi einstaklinga.“

Ásmundur Einar var á Seyðisfirði í dag, heimsótti skriðusvæðið, ræddi við fulltrúa úr sveitarstjórn og íbúa. „Mér finnst hljóðið í heimafólki ótrúlega gott. Ég dáist að eljunni, dugnaðinum við hreinsunarstarfið og hvernig bæjarbúar standa saman. Það er ánægjulegt að geta komið að uppbyggingunni í gegnum úrræði stjórnvalda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.