Áskorun að afgreiða Norrænu sem hraðast

Við þurfum stöðugt að vera að þróa og bæta verklag til að sem hraðast gangi að afgreiða Norrænu við komuna til Seyðisfjarðar þegar farþegum fjölgar á næstu vikum út af þeim takmörkunum sem eru á íslensku landamærunum vegna Covid-19 faraldursins. 

„Við erum með stöðuga vinnu í gangi út af landamærunum og Norrænu. Reglurnar breytast svo mikið að við erum farin að undirbúa næstu ferð um leið og ferjan er farin,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi.

Hún bendir á að fyrrasumar hafi málið mest snúist um tökur sýna úr farþegum, sem leyst var með því að heilbrigðisstarfsmenn flugu til Danmerkur og tóku sýnin um borð á siglingunni til Íslands. Skimunin er enn til staðar en ýmislegt hefur bæst við.

Meira mæðir á lögreglu

Ferðamenn þurfa nú að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna og samkvæmt nýjustu reglunum, sem gengu í gildi á þriðjudag, þurfa ferðamenn frá ákveðnum löndum að fara í sóttvarnahús og þeir sem koma frá áhættumestu löndunum að sýna fram á gildan tilgang ferðar. Hvaða lönd þetta eru getur breyst milli vikna eftir útbreiðslu faraldursins þar.

Mesta skyldan við að ganga úr skugga um að farþegar Norrænu séu með þetta allt á hreinu auk þess tryggja að þeir viti hvaða reglur gilda um leið og þeir eru farnir af hafnarbakkanum, hvílir á herðum lögreglunnar. Unnið er að því að finna út hvernig hægt sé að láta þessa vinnu ganga sem hraðast, einkum þegar farþegum fjölgar þegar kemur fram á sumarið.

„Hlutverk lögreglunnar er orðið meira en það var. Við lærum af hverri ferð og erum í samtali við sóttvarnayfirvöld og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um hvernig við getum gert vinnuna skilvirkari.“

Þar skiptir máli að skilaboð yfirvalda nái til farþega ferjunnar. „Það er stöðugt unnið í að tryggja upplýsingagjöfina en það virðist ekki allt komast til skila. Við erum í samtölum við útgerð ferjunnar líka þar sem allt samstarf hefur verið til fyrirmyndar. Verkefnið getur þó verið flókið þegar reglurnar breytast auk þess sem tungumálaörðugleikar bætast við.“

Tímapressa á sumaráætlun

Norræna er enn á vetraráætlun, sem þýðir að hún kemur til Seyðisfjarðar á þriðjudagsmorgni og fer eftir kvöldmat á miðvikudegi. Þegar sumaráætlun tekur gildi í byrjun júní á ferjan aðeins að stoppa á Seyðisfirði í tvo til þrjá tíma.

„Þegar ferjan er á sumaráætlun er mikil pressa á að klára verkið á sem stystum tíma. Í fyrra fór fólk héðan til Danmerkur til að flýta fyrir. Nú er búið að stækka ferjuna þannig hún tekur fleiri farþega. Við reynum að gera ferlið eins skilvirkt og hratt og hægt er en þetta er áhyggjuefni. Við höfum verið í samtali við útgerðina og stjórnvöld um að leysa þennan vanda, mögulega með svipuðum hætti og í fyrra og erum vongóð um að það takist farsællega. Annað er ekki í boði.“

Mynd: SigAð


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.