Annað að fást við minjabjörgun eftir skriðuföll en snjóflóð

Ný þekking verður til svo að segja á hverjum degi við björgum muna af skriðusvæðinu á Seyðisfirði. Íslendingar þekkja að bjarga munum eftir snjóflóð en hafa ekki áður tekist á við björgun eftir aurskriðu af þessari stærð.

„Það má segja að við séum að skrifa handbók á hverjum degi, þótt óskandi sé að aldrei þurfi að nota hana. Það hefur aldrei verið gert neitt í líkingu við þetta, að minnsta kosti ekki hérlendis. Við vitum að við getum gert mistök því við höfum ekkert fordæmi og stundum er það stressandi þegar við vitum ekki hvað við erum að gera,“ segir Zuhaitz Akizu, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands.

Í mjölskemmu Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði er yfir 200 fiskikör með munum úr Tækniminjasafninu sem bjargað hefur verið eftir skriðuföllin í desember, ásamt aðstöðu til að fara gróflega í gegnum munina.

Tveggja metra hnullungar

Íslendingar þekkja það að fara í gegnum muni sem lent hafa í snjóflóðum en annað er að fara í gegnum muni eftir aurskriður. „Við erum að fást við raka, drullu og þrýsting frá grjóti. Þetta er ekki bara aur, stærstu steinarnir í skriðunni eru allt að tveir metrar í þvermál,“ segir Zuhaitz.

„Í snjóflóðum kemur fyrst höggbylgja sem tætir frá sér eins og sprengja, síðan kemur snjórinn sem þrýstir hlutunum saman. Loftþrýstingurinn er minni úr aurskriðunni, þótt við höfum heyrt lýsingu frá sjónarvottum sem sáu byggingar hér springa. Á eftir henni fylgir síðan aur og grjót en hraðinn er minni þannig skriðan ryður frekar frá sér. Það eru dæmi um að við höfum fundi í tiltölulega góðu ástandi sem þjappast höfðu saman í loftrými úti í horni.

Hlutir sem eru stærri en einn metri eru yfirleitt ónýtir, minni gripirnir sleppa frekar. Sum járnstykkin líta orðið út eins og abstrakt listaverk. En við höfum líka hluti sem hafa sloppið. Við erum með hérna 80-90 cm stóra skipsskrúfu og akkeri, enda erfitt að brjóta þau. Við höfum líka fengið hluti upp úr Vélsmiðjunni í þokkalegu lagi, krafturinn var minni í skriðunni þar,“ segir Zuhaitz.

Þurfa að tæma hús sem enn standa

Stóra skriðan 18. desember eyðilagði aðalhúsnæði Tækniminjasafnsins að Hafnargötu 38 og var það úrskurðað ónýtt í kjölfarið. Ysti hluti þess stóð reyndar uppréttur en fyrir helgi kom í ljós að skemmdir þar eru meiri en áður var talið. Þá eyðilagðist Gamla skipasmíðastöðin alveg. Í byrjun síðustu viku var eins staðfest að svæðið í kringum Tækniminjasafnið telst ekki óhætt til búsetu.

Zuhaitz segir að það þýði að ekki sé heldur hægt að vera með safn á svæðinu þar sem varðveita eigi muni. Þar með með þarf að tæma fjórar byggingar sem safnið hefur ýmist notað sem geymslu- eða sýningarrými. Sú vinna bætist við björgunina úr skriðunni sjálfri. „Hún kostar tíma, peninga og sérfræðiþekkingu.“

En þetta þýðir að meta þarf upp á nýtt hvar gripir Tækniminjasafnsins verða varðveittir. Framtíðin er óljós en byrjað er að horfa eftir skammtímageymslum sem Zuhaitz vonast til að skýrist á næstu dögum. „Við höfum meðal annars skoðað húsnæði hér á Seyðisfirði en það þarf að vera öruggt. Við erum þó til dæmis búin að finna geymslur hér fyrir skjölin, þau eru í forgangi. Við erum að undirbúa að endurskipuleggja allt hér í skemmunni og tæma hana.“

Ástandið versnar eftir því sem dýpra dregur

Björgun muna af svæði Tækniminjasafnsins hófst um leið og óhætt taldist að vinna á skriðusvæðinu. Á Þorláksmessu fannst peningaskápur með verðmætustu munum safnsins, svo sem fjölda ljósmynda.

„Við byrjuðum á innsta hlutanum. Það sem var á efri hæðunum slapp nokkuð vel. Það sem við náðum upp á fyrstu tveimur vikunum slapp að mestu við raka. Þarna er um að ræða 10-12% alls safnkostarins. Ástand munanna versnar eftir því sem við förum dýpra í skriðuna út af þrýstingi, drullu og raka. Þeir munir eru því flestir beygðir eða brotnir. Margir gripir og skjöl hafa þó verið í góðu lagi, en þegar ég segi margir þá meina ég mun fleiri heldur en ég bjóst við.“

Þegar munirnir koma upp eru þeir settir í fiskikör og færðir yfir í mjölskemmuna til nánari athugunar. „Fyrst reynum að flokka þá eftir hvar í Tækniminjasafninu þeir voru geymdir. Síðan skoðum við hversu skemmdir þeir eru og hvaða söfnunarflokki þeir tilheyra. Eftir þessu merkjum við gripina. Ef þeir teljast algjörlega ónýtir er þeim hent.“

Að ýmsu er að huga við björgunina en sem dæmi má nefna að í skemmunni eru tvær frystikistur fullar af skjölum. „Að fara með ákveðna gripi beint úr skriðunni í upphitað húsnæði getur verið það versta sem hægt er að gera. Ef viður þornar hratt brotnar hann upp. Vissir gripir þurfa því að fá að þorna hægt og rólega. Við reiknum með að byrja að hækka hitann á þeim hægt og rólega í vikunni.“

Þjóðminjasafnið kallar til aðstoð

Af þessum orsökum eru þeir starfsmenn sem koma að flokkuninni með vinnuaðstöðu í mjölskemmunni. Þjóðminjasafnið heldur utan um vinnunni og kallar til þá sérfræðinga frá öðrum söfnum sem til þarf í flokkun og forvörslu. Starfsmenn Minjasafns og Héraðsskjalasafns Austurlands hafa eins lagt fram mikilvæga vinnu.

„Við erum í vikulegum samskiptum við Þjóðminjasafnið og fáum sérfræðinga þaðan austur aðra hverja viku. Þeir hafa gefið okkur ráðleggingar um hvað á að gera og hvað ekki. Héraðsskjalasafnið hefur hjálpað okkur við að fara í gegnum skjölin. Sum þeirra eiga beinlínis heima þar en við höldum utan um hvaða skjöl fara þangað.“

Ný þekking sem nýtist víða

Zuhaitz segist hafa reiknað út í byrjun að fimm mánuði tæki að bjarga safnkostinum. Hann segist enn halda sig við það þótt allt eins megi búast við að það taki næsta árið. „Við þurfum að vinna hratt og vel í fyrstu til að draga úr líkunum á skemmdum.“ Áður en skriðurnar féllu var komin af stað vinna við nýja safnastefnu og grisja safnkostinn samkvæmt henni. Að því er unnið áfram samhliða björguninni.

Zuhaitz segist sjá fyrir sér að hluti gripanna verði framvegis á sérstakri sýningu Tækniminjasafnsins um skriðuföllin. Hann segir þekkinguna sem til verður ekki aðeins nýtilega fyrir Seyðfirðinga. „Sú sýning verður fyrir alla sem heimsækja Seyðisfjörð, búa hér eða starfa við söfn. Þeir geta fræðst um hvernig söfn þróast og hvernig náttúruhamfarir geta ógnað þeim. Það sem gerðist hér er frekar fáheyrt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.