Andlát: Sveinn Sigurbjarnarson

Sveinn Sigurbjarnarson, bílstjóri og framkvæmdastjóri frá Eskifirði, lést í nótt eftir baráttu við krabbamein. 

Sveinn var fæddur að Hafursá á Fljótsdalshéraði í júlí árið 1945, fjórði í röð átta systkina.

Hann lauk gagnfræðaprófi frá Eiðum áður en hann hélt á Eskifjörð þar sem hann fór fljótt að gera út vörubíl og traktor. Árið 1969 stofnaði hann fyrirtækið Benni og Svenni ásamt félaga sínum og hélt nafninu þegar sá fyrrnefndi fór út úr rekstrinum. Fyrirtækið starfaði til ársins 1993 þegar Sveinn stofnaði Tanna ferðaþjónustu, sem starfar enn.

Sveinn var frumkvöðull í vetrarsamgöngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Fyrstu ferðina fór hann 28. febrúar árið 1970 á snjóbílnum Gretti en keypti annan öflugri snjóbíl, Tanna, fjórum árum síðar.

Sveinn var meðal þeirra sem gegndu lykilhlutverki í björgunarstarfi eftir snjóflóðin í Neskaupstað árið 1974 við að ferja aðstoð yfir Oddsskarðið. Sveinn starfaði lengi að björgunarstörfum og var um tíma formaður björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði.

Hann var frumkvöðull í austfirskri ferðaþjónustu, tók þátt í stofnun Ferðamiðstöðvar Austurlands og ýmissa hagsmunasamtaka og fór með fólk á fjöll og jökla að sumri sem vetri. Hann fékk viðurkenningu Markaðsstofu Austurlands, Klettinn, í annað skiptið sem hún var veitt árið 2006.

Árið 1984 stóð fyrirtæki Sveins fyrir sinni fyrstu skipulögðu utanlandsferð en þá var farið til Færeyja og sat Sveinn undir stýri rútunnar. Ferðirnar til Færeyja urðu svo að segja árviss viðburður og þegar á leið var haldið víðar. Hann var einnig við stýrið í fjölda ferða skóla og íþróttafélaga á Austurlandi í áratugi.

Ævisaga Sveins kom út árið 2010 og kallast „Það reddast“

Eftirlifandi eiginkona Sveins er Margrét Óskarsdóttir. Þau eignuðust saman fjögur börn en tvö þeirra létust ung.

Í tilkynningu frá Tanna ferðaþjónustu kemur fram að útförin verði auglýst síðar.

Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.