Afkoma Fjarðabyggðar jákvæð um 211 milljónir

Á heildina litið er rekstrarafkoma Fjarðabyggðar góð miðað við árferði á síðasta ári. Afkoma ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 211 milljónir kr. en þar af var afkoma A hluta jákvæð um 52 milljónir kr.

Þetta kemur fram í ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir árið 2020. Fyrri umræða um ársreikninginn fór fram í bæjarstjórn fyrir helgi og sú seinni er áformuð 15. apríl n.k.

„Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2020 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn,“ segir í umfjöllun um reikninginn á vefsíðu Fjarðabyggðar.

„Fjarðabyggð tók meðvitaða ákvörðun um að auka rekstrarútgjöld og fjárfestingar til að bregðast við þeirri kreppu sem við blasti í kjölfar heimsfaraldursins m.a. með aukningu rekstrarútgjalda í formi tímabundina ráðninga og annars rekstrarkostnaðar en aukning frá upphaflegri fjárhagsáætlun nam um 200 milljónir kr. auk þess sem fjárfestingar voru auknar um 821 milljónir kr. frá upphaflegri fjárfestingaráætlun á árinu 2020.“

Þá segir að Fjarðabyggð byggi á sterkum tekjugrunni og sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum. 

„Niðurstaða ársreiknings gefur fyrirheit um áframhaldandi kraftmikið samfélag til framtíðar líkt og áður,“ segir á vefsíðunni.

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 8.706 milljónum kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 6.072 milljónum kr.  Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 8.471 milljónir kr. árið 2019.  Rekstrartekjur samstæðu hækkuðu því um 2,8% á milli ára.

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 7.373 milljónum kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 5.948 milljónir kr.

Handbært fé hækkaði á árinu um 48 milljónir kr. og nam 180 milljónum kr. í árslok 2020.

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2020 samtals 16 milljörðum kr., þar af námu fastafjármunir tæpum 15 milljörðum kr.
Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 10 milljörðum kr. og hækkuðu á milli ára um 333 milljónir kr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.