Ætla að halda áfram mótmælum í Berufirði: Látum ekki bjóða okkur þetta

Áfram verður mótmælt í Berufirði vegna frestun vegaframkvæmda í botni fjarðarins. Skipuleggjendur segjast ætla halda áfram þar til framkvæmdir við lagningu nýs vegar hefjast. Ummæli samgönguráðherra um að mótmælin hafi engin áhrif hafa farið öfugt ofan í þá.


„Það var ótrúlega ánægjulegt að finna þessa samstöðu í gær. Hingað kom fólk frá Egilsstöðum, Höfn, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík sem sýnir að þetta er ekki okkar einkamál,“ segir Berglind Häsler, bóndi á Karlsstöðum í Berufirði og einn skipuleggjenda mótmælanna.

Hátt í tvö hundruð manns á um 60 bílum komu saman í Berufirði í gær til að mótmæla ákvörðun samgönguráðherra um að fresta vegaframkvæmdum á þjóðvegi 1.

Í viðtali við Fréttablaðið í morgun sagði Jón Gunnarsson samgönguráðherra að mótmælin breyttu engu um ákvörðunina. Þau ummæli hafa fallið í grýttan veg í Berufirði. „Þetta æsir okkur bara enn frekar upp, slíkur er hrokinn í ráðherra“ segir Berglind.

Koma vegakerfinu af fimmta áratugnum

Hún lýsir vonbrigðum með lausnir sem ræddar hafi verið samgöngumálum svo sem vegtolla og einkavæðingu. „Það var ekki rætt um þetta fyrir kosningar. Einkavæðingin hefur ekki farið svo vel með okkur á landsbyggðinni. Hver græðir á að gera veg um Berufjörð?“

Ummæli Haraldar Benedikssonar formanns fjárlaganefndar, í Silfrinu í gærmorgun um að hugsa þurfi samgöngukerfið upp á nýtt og búa það undir til dæmis sjálfkeyrandi bíla hjálpa heldur ekki. „Eigum við ekki að byrja á því að koma vegakerfinu af fimmta áratugnum?“

Berglind lýsir enn fremur hve ósátt hún sé við að mönnum sé att saman bæði innan kjördæmis og milli kjördæma. „Ég hef engan áhuga á stríði við Vestfirðinga um hvaða vegaúrbætur séu mikilvægastar. Við verðum að fá fólk með lausnir.“

Pönkumst áfram

Búið er að ákveða næstu mótmæli sem eiga að vera á fimmtudag milli klukkan fimm og sjö. „Við hættum ekki fyrr en búið verður að draga þessa ákvörðun til baka.“


Þangað til verður beðið eftir fundi samgöngunefndar Alþingis með ráðherra sem fyrirhugaður er á miðvikudag. „Við fylgjumst með hvað kemur út úr honum. Það eru þingmenn sem hafa talað um að ráðherra hafi ekki umboð til að taka þessa ákvörðun. Við höldum enn í vonina um að hægt sé að draga þetta klúður til baka.“

Hún segir vegfarendur sem áttu leið um Berufjörðinn í gær hafi sýnt mótmælunum skilning. „Þeir sem ekki höfðu frétt af þessu stigu út úr bílunum og tóku þátt. Útlendingarnir voru áhugasamir og sýndu okkur fullan skiling.“

Þá hefur verið stofnaður baráttuhópur á Facebook undir nafninu „Botn Berufjarðar“. „Við látum ekki bjóða okkur þetta. Við pönkumst í þessu liði þar til eitthvað kemur út úr þessu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.