Barri með mýs í vinnu: Söfnuðu átta þúsund fræjum á þremur vikum

konglafrae BarriSkúli Björnsson, framkvæmdastjóri Gróðrarstöðvarinnar Barra ehf., birti fyrir skemmstu myndband á Facebook-síðu sinni og greindi frá því að ódýrt vinnuafl hefði bæst í starfsmannaflóru fyrirtækisins. Þrjár mýs höfðu komið sér vel fyrir í vinnusalnum og söfnuðu fræjum eins og enginn væri morgundagurinn.

Á hverju ári týnir starfsfólk Barra lindifuruköngla á Hallormstað sem þarf svo að klengja, þ.e. taka lindifurufræið úr könglunum. Þetta er talsverð vinna fyrir okkur mannfólkið, en lítið mál fyrir mýs. Skúli „réði“ því mýsnar til starfa án þess að þær vissu af því, eða svona því sem næst.

Klárari en við að hreinsa

„Það er stór kostur að láta mýs flokka. Þær taka bara heilu fræin, sem er aðferð sem við mannfólkið eigum rosalega erfitt með að gera sjálf og einfaldlega kunnum ekki. Þær eru miklu klárari í þessu en við. En þar sem við týndum slatta af könglum á síðasta ári réði ég góðar konur í vinnu til að taka fræið úr könglunum og borgaði þeim laun fyrir, en auðvitað tók ég svo þessum óvæntu starfskröftum fagnandi,“ segir Skúli í samtali við Austurfrétt.

Mikið af könglum lá inni í vinnusal Barra til þerris yfir jólin en þegar starfsfólk snéri til vinnu eftir áramótin brá þeim heldur betur í brún.

„Þegar Erla Vilhjálmsdóttir, ræktunarstjóri ætlaði að fara að klengja tók hún eftir að það var búið að tæma heilmikið af könglunum. Í náttúrunni safna mýsnar þessu og borða og maður gerir ráð fyrir að þær þurfi ekki mikið. En þær höfðu safnað saman um tveimur og hálfu kílói og komið þeim fyrir í framlengingu á göfflum sem við erum með í vinnusalnum. Það telur um sexþúsund fræ sem þær höfðu safnað. Það er mikill forði fyrir músafjölskyldu. Við tæmdum þetta að sjálfsögðu en þá fundu þær sér bara nýjan stað.

Erla komst að því hvar þær voru með því að dreifa hveiti til að sjá hvert þær voru að fara. Við leyfðum þeim að vera í friði og þær héldu áfram að safna og settu núna fræið í kassa. Innan skamms var komið eitt kíló í viðbót af hreinsuðum fræjum. Ég veit ekkert hvar þær eru núna. Við höfum ekki orðið vör við þær í svolítinn tíma. Ég er skíthræddur um að þetta liggi einhversstaðar í felum og fjölgi sér, segir Skúli.

Gerðu tilraun

En hefur Skúli aldrei spáð í að hafa eingöngu mýs í vinnu til að hreinsa fræin úr könglunum? „Við reyndum það einu sinni og það var mikið hlegið að okkur. Við útbjuggum samastað handa músunum og ætluðum að láta þær flokka fræin. Þær voru í góðu yfirlæti og höfðu það greinilega allt of gott því þær voru ekkert safna, þær átu bara fræin.

En svona gerist þetta í náttúrunni. Ég var búinn að taka eftir því uppi á Hallormstað. Þær eru alveg ótrúlega fljótar að koma og tæma könglana þegar þeir detta á jörðina svo ég hugsaði, af hverju ekki að fá þær til að gera þetta. Við gerðum allavega tilraun þó hún hafi ekki heppnast sem skildi. En þessar duglegu mýs sem voru í heimsókn hjá okkur núna söfnuðu um 8.000 fræjum á tæpum þremur vikum svo hugmyndin var kannski ekki svo galin eftir allt saman,“ segir Skúli að lokum.

Hér má sjá myndbandið sem Skúli tók af litlu starfskröftunum að störfum.

Mynd 1: Fræin sem mýsnar geymdu í framlengingunni.
Mynd 2: Mýsnar á myndinni tengjast fréttinni ekki beint.



Mys Barri

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.