Mesti hreindýrakvótinn frá upphafi og breytingar á reglum um greiðslufyrirkomulag: Tel þetta miklu betra á allan hátt

joi guttBúið er að opna fyrir umsóknir á hreindýraveiðar fyrir veiðitímabil 2015. Heimilt verður að veiða 1412 hreindýr á árinu sem er mesti hreindýrakvóti frá upphafi. Undanfarin ár hefur ásókn í hreindýraveiðileyfi farið vaxandi en undanfarin ár hafa umsóknir verið mun fleiri en leyfin.

Umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi er til og með 15. febrúar og heimilt verður að veiða tarfa frá 15. júlí til og með 15. september en kýr frá 1. ágúst til og með 20. september. Eins og undanfarin ár verður óheimilt að veiða kálfa og veturgamla tarfa. Verð fyrir veiðileyfin eru óbreytt frá í fyrra, 135.000 fyrir tarfa og 80.000 fyrir kýr.

Greiða skal veiðileyfið ekki síðar en 15. apríl

Sú breyting verður gerð í ár að veiðimenn sem fá úthlutað veiðileyfi í útdrættinum í febrúar þurfa að greiða veiðileyfið að fullu ekki síðar en 15. apríl. Staðfestingargjald verður lagt niður og allt greitt í einni greiðslu. Þetta er gert til að flýta fyrir afgreiðslu leyfa til þeirra sem lenda á biðlista.

Fram til þessa hefur lokagreiðsla ekki þurft að berast fyrr en 30. júní sem hefur gert það að verkum að það var komið fram undir veiðitíma þegar lá fyrir hve mörg leyfi voru að fullu greidd og því ekki hægt að endurúthluta fjölda leyfa fyrr en þá.

Færst hefur í vöxt að veiðimenn greiði ekki lokagreiðslu. Þetta hefur haft þau óþægindi í för með sér að skammur tími hefur gefist til að úthluta leyfum sem skilað var inn og þegar haft er samband við veiðimenn eru fjölmargir sem hætta við að fara á veiðar vegna lítils fyrirvara.

Með þessari breytingu ættu flestir veiðimenn sem lenda á biðlista að vita mun fyrr en áður hvort þeim standi til boða að fá veiðileyfi. Þetta eykur sömuleiðis líkur á að hægt verði að koma öllum leyfunum út en á síðasta ári náðist það ekki.

„Það ættu allir að vera sáttir við þessar breytingar. Þetta flýtir fyrir því að menn geti taki ákvörðun um hvort þeir komist á veiðar eða ekki. Það hefur verið allt of mikið um það síðustu ár að leyfum hafi verið skilað til baka í byrjun júlí sem hefur skapað ákveðin vandamál, “ segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar í samtali við Austurfrétt.

„Þetta ætti líka að vera gott fyrir leiðsögumennina að geta skipulagt sig með allan hópinn fyrr þar sem fjöldinn liggur fyrir strax í apríl. Það ætti líka ekki að breyta miklu fyrir þann sem ætlar á veiðar að borga gjaldið í einu lagi. Hann er þá bara búinn að greiða veiðileyfið fyrr og getur þá bara farið að safna fyrir því sem þarf að leggja út fyrir þegar hann fer á sjálfar veiðarnar sem er örugglega önnur eins upphæð.

Þetta ætti því að vera jákvætt fyrir alla aðila að ganga frá leyfinu fyrr. Ég er allavega spenntur að sjá hvernig þetta kemur út. Ég tel þetta miklu betra á allan hátt,“ segir Jóhann að lokum.

Dregið út í lok febrúar

Dregið verður úr umsóknum í lok febrúar. Þeir veiðimenn sem fá ekki úthlutað þá og hafna á biðlista ættu flestir að vita í lok apríl hvort þeim standi leyfi til boða. Eftir sem áður verður haft samband við menn á biðlista þegar nær dregur veiðitímabili ef leyfi losna en vonast er til að þessi breyting muni fækka slíkum tilfellum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.