Rjúpnaveiðin að hefjast á föstudag

rjupaÁ föstudaginn hefst rjúpnaveiðitímabilið. Það stendur í 12 daga þar sem veiða má þrjá daga í senn frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð. Síðasti veiðidagur er 16. nóvember. Ekki er víst að veðrið verði veiðimönnum hliðhollt alla dagana og mikilvægt að huga vel að því við undirbúning.

Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni segir að um helgina megi vænta hæglætis vetrarveðurs víðast hvar á föstudag, hægum vindi og smáéljum hér og þar. „Á laugardag hvessir hins vegar af austri og þá má reikna með snjókomu og skafrenningi til fjalla, en slyddu á láglendi. Á sunnudag dregur svo enn frekar til tíðinda og talsverðar líkur þá á norðankasti á landinu samfara djúpri lægð fyrir austan land.“

Það er árviss viðburður að björgunarsveitir séu ræstar út til að aðstoða rjúpnaskyttur í vanda. Veiðimönnum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt. Með því að búa sig vel má bæði koma í veg fyrir slys og að villast.

Mikilvægt er að veiðimenn búi sig vel, kynni sér í þaula færð og veður fyrir brottför og taki full mark á viðvörunum.

Skoði gasspá og mælingar á loftgæðum. Ef gasmengun er á svæðinu getur þurft að endurskoða áætlanir og/eða hafa með sér viðeigandi búnað. Rakur klútur fyrir vitum getur hjálpað. Hafa þarf í huga að brennisteinsmengun getur verið missterk innan hvers svæðis. Til að mynda getur mengunin safnast fyrir í lautum og dölum. Þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærum þurfa sérstaklega að hafa varann áog ef tekin eru lyf við því ættu þau að vera meðferðis.

-Gera ferðaáætlun og skilja hana eftir hjá vandamönnum og á safetravel.is. Þar þarf að koma fram hvert á að fara, hverjir eru með í för, með hvaða búnað og hvenær áætlað er að koma til baka.

-Klæðast fatnaði í nokkrum lögum og það ysta vel vind og vatnshelt og í áberandi lit.
Vera í vatnsheldum skóm með grófum sóla.

-Hafa áttavita, kort og fjarskiptatæki með í för. Gæta þess að allar rafhlöður séu vel hlaðnar og vera með 112 snjallsímaforritið í símanum.
Vera á vel útbúnum bíl, á góðum vetrardekkjum og hreinsa þau með tjöruhreinsi áður en lagt er af stað.

-Hafa orkuríkt nesti og nægan vökva með í för og gott er að hafa hluta vökvans heitan.

-Ekki vera ein á ferð og gæta að öðrum veiðimönnum .

-Aldrei geyma byssuna hlaðna í bílnum og hafa öryggið á á göngu.

-Spenna ávallt bílbeltið og gæta þess að festa niður farangur.

Mynd: Umhverfisráðuneytið


 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.