Hrafnkell Lárusson: Lítill sparnaður en gríðarleg þjónustuskerðing þegar RÚV hætti svæðisútsendingum

hrafnkell larusson mars14Sagnfræðingurinn Hrafnkell Lárusson dregur í efa að sá sparnaður hafi náðst sem stefnt var að þegar útsendingum svæðisútvarpa Ríkisútvarpsins var hætt í ársbyrjun 2010. Hann segir stefnu RÚV undanfarin ár hafa verið í þveröfuga átt við þá dreifðu starfsemi sem haldið sé uppi hjá norska ríkisútvarpinu (NRK).

Þetta kom fram í máli Hrafnkels sem var meðal frummælenda á málþingi Austurfréttar og Austurgluggans um svæðisbundna fjölmiðla sem haldið var á Egilsstöðum á laugardag. Hrafnkell hefur að undanförnu rannsakað þróun svæðismiðla á Austurlandi á árunum 1985-2010.

Snemma árs 2010 var reglubundnum útsendingum svæðisútvarps hætt í miklum sparnaðaraðgerðum á RÚV sem bitnuðu harkalega á fréttastofunni sem svæðisstöðvarnar heyrðu undir. Áætlað var að með því næðist að spara 31 milljón á ári.

Lykilmenn innan stofnunarinnar héldu því fram að þjónusta við landsbyggðina yrði ekki skert, meðal annars með tilkomu sjónvarpsþáttarins Landans og sérstaka útvarpsfréttatíma af landsbyggðinni, sem reyndust skammlífir.

„Fyrirheit um aukna fréttaþjónustu voru óraunhæf. Sparnaðurinn var lítill en þjónustuskerðingin gríðarleg. Stjórnendur völdu hvað var, hvað fór og hvað kom í staðinn. Sennilega er nær að tala um stefnubreytingu frekar en sparnað. Nýjungarnar sem komu urðu ekki til úr engu," sagði Hrafnkell.

Aukin þjónusta með færri starfsmönnum?

Á starfsstöð RÚVAust voru á tíma svæðisútvarpsins lengst af tveir fréttamenn, tæknimaður, tökumaður og auglýsingasali. Í dag er einn maður á stöðinni á Egilsstöðum. „Það er stórundarlegt að halda því fram að verið sé að auka þjónustuna með því að fækka starfsmönnum og leggja fréttaöflun, myndatöku og alla aðra vinnu á einn mann."

Hrafnkell bar saman að eftir breytinguna kæmu 2,2-2,8 fréttir að austan að meðaltali í aðalfréttatíma Sjónvarpsins. Á árunum 2002-2009 voru þær 4,2-6,5. Hrafnkell tók starfsemi NRK sem dæmi um meðvitaða ákvörðun um að dreifa starfseminni um landið.

NRK er með 13 svæðisstöðvar í öllum fylkjum Noregs og 56 stöðvar í allt. Tæpur helmingur starfsmanna er staðsettur utan höfuðstöðvanna. „Þessi dreifing starfseminnar er ekki tilviljun. Hún er eitt af helstu markmiðum NRK.," sagði Hrafnkell.

Í tilfelli RÚV eru 95% starfsmanna með aðsetur í Efstaleiti. Hrafnkell sagði stefnu RÚV gagnvart landsbyggðinni hafa verið ósanngjarna og nefndi að fyrrverandi útvarpsstjóri hefði ítrekað hundsað beiðnir Austfirðinga að koma til fundar við þá.

Fréttamatið endurspeglast af höfuðborginni

Fræðimenn segja svæðisbundna fjölmiðlum skipta máli fyrir aðgengi að upplýsingum, samskipti íbúa, þátttöku og þróun lýðræðis og sköpun sjálfsmyndar. Síðustu ár hefur þróunin verið sú að landsmiðlarnir hafa dregið verulega úr starfsemi sinni á landsbyggðinni.

„Það er augljóst ójafnvægi í fjölmiðlun á landsvísu á milli höfuðborgar og dreifbýlis. Höfuðstöðvar þeirra eru í Reykjavík. Á því eru eðlilegar skýringar en þetta ber engu síður að hafa hugfast. Fréttamat og efnisval endurspeglast af höfuðborginni sem er um margt ólík landsbyggðinni."

Hrafnkell nefndi mál eins og skipulagsmál sem dæmi um málefni með þrönga skírskotun sem skipti samt máli. Dæmi um slíkt væri Hofsvallargötumálið sem fékk töluverða umfjöllun í landsmiðlunum í sumar. Það sé í eðli sínu hverfismál.

„Meðan svæðisstöðvar RÚV voru starfræktar sinntu þær þessum hlutverkum fyrir sín svæði. Á vettvangi þeirra var stofnað til samtals og skoðanaskipta um ýmis málefni, t.d. skipulags- og skólamál einstakra byggðarlaga eða umhverfis- og atvinnumál heils landssvæðis.

Þetta samtal og umræða hvarf að mestu úr austfirskum fjölmiðlum með niðurlagningu svæðisútvarpsins. Dægurmálaþættir Rásar 2 og Bylgjunnar sinna þessu hlutverki ágætlega fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar eru borgarfulltrúar kallaðir til umræðna um t.d. Orkuveituna eða leikskólamál í borginni.

Allt eru þetta mál sem verðskulda umfjöllun. En þetta eru svæðismálefni höfuðborgarsvæðisins og hafa sum hver litla skírskotun út fyrir nánasta umhverfi, snerta jafnvel íbúa í úthverfum Reykjavíkur eða nágrannbyggðalögum lítið, hvað þá aðra landsmenn.“

Þá vísaði Hrafnkell í áhyggjur fræðimanna af vaxandi framleiðnikröfu sem komi niður á faglegum vinnubrögðum. Markaðsvæðing fjölmiðla verði til þess að áherslan sé á skemmtifréttir þannig að tímafrekari og erfiðari verkefni víki fyrir léttmeti.

„Það er óumdeilt að svæðismiðlarnir þjóna lýðræðishlutverki. Umræðan snýst frekar um hvernig þeir gera það og ljóst er að þeir gera það víða af veikum mætti."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.