Orkumálinn 2024

Atvinnuleysi eykst

Atvinnuleysi hefur aukist talsvert á Austurlandi síðustu daga. Í dag eru samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar 120 karlar skráðir atvinnulausir og 80 konur. Í upphafi mánaðarins voru um 140 skráðir. Athygli vekur að yfirleitt hafa konur verið fleiri á atvinnuleysisskrá á Austurlandi en hrun byggingarverktakafyrirtækja undanfarið gerir að verkum að fleiri karlmenn eru nú á skránni. Vinnumálastofnun á Austurlandi gerir ráð fyrir að atvinnuleysi muni enn aukast í fjórðungnum í þessum mánuði.

020118114032welding_101_t.jpg

Heilbrigðisstofnanir fari í sameiginleg innkaup og útboð til að spara fé

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur kynnt hugmyndir um stóraukið samstarf á sviði útboða og sameiginlegra innkaupa heilbrigðisstofnana um land allt. Hann segir mjög mikilvægt að heilbrigðisstofnanir vinni saman og beiti útboðum og sameiginlegum innkaupum innanlands og milli landa til að ná frekari hagkvæmni í rekstri. Lauslegt hagkvæmnismat bendir til að draga megi úr kostnaði sem nemur rúmlega 150 milljónir króna árlega með sameiginlegum innkaupum og útboðum lyfja. Með því að standa sameiginlega að útboðum og innkaupum lyfja og lækningavöru má draga enn meira úr rekstarkostnaði í heilbrigðisþjónustunni.

syringe.jpg

Lesa meira

Miklir glæpamenn erum vér

Smári Geirsson fyrrverandi formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og Þorvaldur Jóhannsson framkvæmdastjóri sambandsins skrifa:

Í síðasta tölublaði Austurgluggans birtist grein eftir Dr. Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor sem ber yfirskriftina Frá velsæld til vesældar. Í greininni fjallar prófessorinn um þá efnahagskreppu sem nú herjar og tekur sér fyrir hendur að útskýra orsakir hennar.

Niðurstaða prófessorsins er sú að “kveikiefnið” sem hratt af stað styrkingu krónunnar sem orsakaði ofvöxt og síðan hrun bankanna hafi verið stórframkvæmdirnar á Austurlandi. Hann skrifar einnig um að talsmenn sveitarfélaga á Austurlandi hafi gengið fram með “nokkru offorsi og látum” í baráttu sinni fyrir umræddum stórframkvæmdum og þeir hafi kallað þá “óvini Austurlands” sem dirfðust að spyrja spurninga um efnahagslegar forsendur framkvæmdanna.

Hann segir að þessir ofurkappsömu sveitarstjórnarmenn hafi talið að ef álver risi við Reyðarfjörð yrði búseta á Austfjörðum tryggð um næstu áratugi en gefur í skyn að hagsmunir þeirra svæða fjórðungsins sem séu utan áhrifasvæðis álversins hafi verið fyrir borð bornir. Þá bendir hann á að lækkandi álverð muni halda aftur af launaþróun starfsmanna álversins þó svo að launin haldist tiltölulega há miðað við aðra vinnustaði á svæðinu. Þannig gefur hann í skyn að sjávarútvegur geti vart þrifist í nágrenni við álverið vegna smitáhrifa frá launum í álverinu. Niðurstaða hans hvað þetta varðar er að framkvæmdirnar á Austurlandi muni ekki hafa nein teljandi áhrif á búsetuþróun í landshlutanum til lengri tíma litið.

Þá höfum við það. Frumorsök kreppunnar liggur ekki hjá bönkunum, ekki hjá ríkisstjórninni eða í veikri krónu, ekki hjá Seðlabanka eða Fjármálaeftirliti og ekki í útrásinni margumtöluðu. Nei, frumorsökin liggur í virkjunar- og álversframkvæmdum á Austurlandi og á meðal helstu sökudólga eru austfirskir sveitarstjórnarmenn. Já, miklir glæpamenn erum vér.

Pólitísk gagnrýni

Dr. Þórólfur Matthíasson hefur lengi beitt sér gegn virkjunar- og stóriðjuframkvæmdum hér eystra og hann er einn af þeim sem hefur mikla þörf fyrir að gagnrýna framkvæmdirnar þó svo að þær séu um garð gengnar og telja að þær orsaki allt illt sem gerist í samfélaginu. Gagnrýni Þórólfs hefur alla tíð verið af pólitískum toga en hann hefur hins vegar ávallt hampað fræðigrein sinni og prófessorstitli í þeirri von að orð hans yrðu trúverðugri í hinu pólitíska orðaskaki. Greinar Þórólfs eru oft á tíðum svipaðar þeirri sem birtist í Austurglugganum: Fullar af allskonar staðhæfingum sem oft bera vitni vanþekkingu á austfirskum aðstæðum og algerlega lausar við haldgóðan rökstuðning. Það er til dæmis eftirtektarvert að í greininni í Austurglugganum færir hagfræðingurinn engin talnaleg rök fyrir málflutningi sínum.

Við sveitarstjórnarmenn hér eystra, sem búum enn við skrif af þessu tagi, höfum aflað okkur nokkurra upplýsinga um hin efnahagslegu áhrif stórframkvæmdanna á íslenskt efnahagskerfi. Sú staðreynd virðist blasa við að efnahagslegu áhrifin eru miklu minni en gagnrýnendur framkvæmdanna vilja vera láta. Og því fer fjarri að frumorsök núverandi kreppu geti legið í framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál þó þar sé um viðamiklar framkvæmdir að ræða.

Minni áhrif

Á tímabilinu 2004-2007, eða á helsta framkvæmdatímabilinu eystra, var meðalinnflæði erlends fjármagns (nettó) til landsins um 214 milljarðar á ári eða um 1000 milljarðar á öllu tímabilinu. Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál kostuðu um 350 milljarða samtals. Þar af komu  einungis um 10-20% fjármagnsins inn í landið eða um 35-70 milljarðar. Þannig bárust 6-12 milljarðar erlends gjaldeyris á ári til landsins  vegna framkvæmdanna eystra. Obbinn af kostnaðinum vegna þessara framkvæmda fór nefnilega til kaupa á vélum og búnaði erlendis og kom því aldrei inn í landið í formi gjaldeyris. Þá ber að nefna að framan af var áætlað að 30% vinnuaflsins við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins yrði íslenskt en í reyndinni varð það aldrei nema um 10%. Áhrif umræddra framkvæmda urðu af þessum ástæðum í alla staði miklu minni á íslenskt efnahagslíf heldur en heildarkostnaður við framkvæmdirnar gæti gefið til kynna. Það sér hvert barn að 6- 12 milljarða árlegt innstreymi erlends fjármagns vegna framkvæmdanna vegur lítið þegar um er að ræða 214 milljarða árlegt heildarinnstreymi til landsins.

Skilar gjaldeyri

Það er alveg ljóst að dr. Þórólfur Matthíasson og samherjar hans verða að leita annað en til austfirskra stórframkvæmda til að skýra vöxt bankanna og efnahagshrunið. Hitt er annað mál að orkan frá Kárahnjúkum og álið frá Fjarðaáli skilar nú þjóðinni miklum gjaldeyri öfugt við ýmsar fjárfestingar sem ráðist hefur verið í nýverið og dr. Þórólfur hefur ekki fyrir að gagnrýna í sama mæli. Má í því sambandi minna á  að nú standa um 3000 íbúðir fullgerðar en ónýttar á höfuðborgarsvæðinu og þúsundir íbúða til viðbótar eru á byggingarstigi. Þá skal geta um allt verslunarhúsnæðið sem byggt hefur verið að undanförnu á höfuðborgarsvæðinu og kórónar það byggingaræði sem riðið hefur yfir samfélagið. Prófessorinn þarf nefnilega ekki að líta austur á land til að finna helstu orsakavalda kreppunnar. Hann ætti frekar að rifja upp þenslu- og fjárfestingarfarganið á sínum heimaslóðum og fara yfir þátt bankanna í innstreymi gjaldeyris til landsins með öllum þeim áhrifum sem því fylgja.

Álver sannar sig

Hvað varðar aðra þætti greinar prófessorsins er vert að koma eftirfarandi á framfæri: Það hefur ávallt verið ljóst að áhrifasvæði álversins næði ekki yfir allan fjórðunginn og því þyrfti áfram að leita leiða til að byggja upp atvinnulíf og mannlíf nyrst og syðst í honum. Tilkoma álversins hefur þegar sannað sig sem mikilvæg byggðaaðgerð. Í því sambandi má nefna að á árunum 2002-2008 má gera ráð fyrir að störfum í sjávarútvegi í Fjarðabyggð hafi fækkað um hátt í 300 en vegna tilkomu álversins hefur föstum íbúum sveitarfélagsins hins vegar fjölgað verulega og er enn að fjölga. Fækkun starfa í sjávarútvegi hefur ekkert með tilkomu álversins að gera heldur eru það aðstæður í atvinnugreininni sjálfri og mikil tæknivæðing sem hefur stuðlað að fækkun þeirra. Í núverandi kreppu eru það helst útflutningsfyrirtæki sem geta staðist þau áföll sem í henni felast. Bæði Fjarðaál og sjávarútvegsfyrirtækin eru útflutningsfyrirtæki og er full ástæða til að hafa minni áhyggjur af þeim en öðrum fyrirtækjum eins og til dæmis fyrirtækjum á sviði þjónustu eða verktakastarfsemi.

Við, sem ritum þessa grein, vorum í forsvari fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) þegar barist var fyrir umræddum stórframkvæmdum í landshlutanum. Það eru því líklega undirritaðir sem prófessorinn hefur helst í huga þegar hann fjallar um talsmenn sveitarfélaganna sem komu fram með “nokkru offorsi og látum” í baráttunni fyrir þeim. Og hugsanlega telur hann okkur eiga verulega sök á því að hafa lagt til ,,kveikiefnið” sem hratt kreppunni miklu af stað. Við vonum að hagfræðiprófessorinn endurskoði afstöðu sína í ljósi staðreynda og leiti uppi hina raunverulegu orsakavalda kreppunnar þar sem hann situr í höll sinna fræða í höfuðborginni.

Kærleikskúla og Grýla gamla á boðstólum

,,Við ætlum að vera vel sýnilegar og verðum með þessa fallegu hluti  til sölu á nokkrum stöðum fyrir jólin," segir Yvette Lau, verkefnastjóri fjáröflunarnefndar Soroptimistaklúbbs Austurlands. Klúbburinn hefur aftur tekið að sér að selja Kærleikskúluna og  Grýlu gömlu fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.

krleikskla1.jpg

Lesa meira

Ályktun stjórnar kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi

Stjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lýsir fullum stuðningi við formann Samfylkingarinnar og þingflokk í þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að og framundan eru við endurreisn efnahagslífsins. Einnig leggur stjórnin áherslu á mikilvægi þess að hafinn verði undirbúningur aðildarviðræðna við ESB og samningsmarkmið ákveðin, síðan verði farið í samningsviðræður og niðurstöður þeirra bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

logo.gif

Lesa meira

Banaslys í Berufirði

Karlmaður á sjötugsaldri lést í umferðarslysi í Berufirði í nótt.

Slysið varð skammt frá bænum Gautavík norðanvert í firðinum. Hafði ökutæki mannsins lent út af veginum og á moldarbarð í farvegi Búðarár. Lögreglu var tilkynnt um slysið af vegfaranda snemma í morgun. Maðurinn var látinn þegar komið var að honum.

Fimm austfirsk verkefni fá styrk úr Þjóðhátíðarsjóði

Úthlutað var úr Þjóðhátíðarsjóði fyrir árið 2009 í byrjun mánaðar. Fimm verkefni á Austurlandi hlutu styrk. Skriðuklaustursrannsóknir hlutu einn af fimm hæstu styrkjunum, 1 milljón króna, sem veitt er til greininga á milli grafa úr kaþólskum og lútherskum sið. Vinna á úr gögnum rannsóknarinnar um klausturgarð klausturkirkjunnar á Skriðuklaustri. Dr. Steinunn Kristjánsdóttir stýrir verkefninu.

thjodhatidarsjodur.gif

Lesa meira

Fullar hendur smjörs?

Þórólfur Matthíasson svarar Smára Geirssyni og Þorvaldi Jóhannssyni:

 

Ritstjóri Austurgluggans hafði samband við mig fyrir nokkru og bað mig um að útskýra (mína skoðun á (innsk.ritstj.)) aðdraganda yfirstandandi kreppu og efnahagshruns fyrir lesendum blaðsins.  Frásögn mín birtist í 47. tölublaði 7. árgangs Austurgluggans.  Ég rakti þá flóknu og á stundum þversagnakenndu atburðarás sem var undanfari hrunsins í stuttu máli.  Eðli máls samkvæmt var stiklað mjög á stóru enda líklegt að skrifaðar verði bækur og jafnvel bókasöfn um aðdraganda kreppunnar, kreppuna sjálfa og afleiðingar hennar.  Ekki er ástæða til að endursegja grein mína hér.

Eitthvað hefur grein mín farið fyrir brjóstið á Smára Geirssyni og Þorvaldi Jóhannssyni því þeir senda mér tóninn í næsta tölublaði Austurgluggans.  Þeir beita margoft margfrægri smjörklípuaðferð, telja mig pólitískan úlf í fræðilegri sauðagæru.  Til sannindamerkis um að ég babli pólitík en ekki hagfræði nefna þeir að ekki sé að finna neinar tölur í grein minni og klykkja út með því að láta að því liggja að mér hefði verið nær að draga úr framkvæmdagleði á höfuðborgarsvæðinu en að agnúast út í jarðvegsflutninga á Austurlandi.

Klípa eitt

Fyrsta smjörklípan snýst um meinta pólitíska misnotkun á fræðapósti mínum við Háskóla Íslands.  Forsendur og inntak hafa valdið mér heilabrotum.  Í fyrsta lagi veit ég ekki betur en annar höfundanna að minnsta kosti hafi valið sér það hlutskipti í lífinu að vera pólitíkus.  Samt sýnist mér að orðið pólitík sé skammaryrði í hans munni.  Þó pólitíkusar standi ekki hátt í kúrs þessa dagana þá finnst mér þetta nú heldur langt gengið af hálfu pólitíkusins Smára Geirssonar. Í öðru lagi nefna þeir félagar ekki nein dæmi um í hverju meint pólitísk afstaða mín komi fram.  Ég veit ekki betur en að efasemdamenn um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé að finna innan allra pólitískra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og raunar einnig þeirra sem ekki komu mönnum inn á þing.  Framsókn er helst undantekning.   Ég á því bágt með að sjá að efasemdir um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar teljist taumdráttur fyrir ákveðna stjórnmálahreyfingu.  Nema það teljist til glæpa í Austfirðingafjórðungi að vera ósammála Framsókn!  Ég byrjaði að efast um arðsemi Kárahnjúkadæmisins í kjölfar þess að Landvernd bað mig um að fara yfir matsskýrslur Nýsis og Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri vegna samfélagsáhrifa framkvæmdanna á Austurlandi.  Það vakti athygli mína að engin tæmandi umfjöllun var um þjóðhagslega arðsemi verkefnisins í matsskýrslunum.  Ég auglýsti eftir alvöru þjóðhagslegri kostnaðar-ábatagreiningu.  Svörin sem ég og Landvernd fengum voru sambland skætings og tómlætis.  Það vakti mér grunsemdir um að Landsvirkjun og aðrir undirbúningsaðilar teldu það setja framvindu verkefnisins í hættu að upplýsa um þjóðhagslega arðsemi verkefnisins.  Sú grunsemd varð að vissu þegar úrskurður Skipulagsstofnunar lá fyrir.  Í þriðja lagi þá hélt ég að krafan um að fræðimenn tækju ekki afstöðu til málefna líðandi stundar hafi verið sprengd í tætlur yfir borgunum Nagasaki og Hirosima árið 1945.  Þetta átti allavega við vestan járntjalds og fremstur í flokki fóru þeir vísinda- og fræðimenn sem komu að hönnun kjarnorkusprengjunnar.  Ég tel mér skylt, meðal annars með hliðsjón af starfsskyldum mínum hjá Háskóla Íslands að upplýsa almenning um hvernig standa megi betur að undirbúningi stórra ákvarðana.  Ákvörðunin um virkjun við Kárahnjúka er dæmi um stóra ákvörðun sem ekki bara var tekin var á pólitískum grundvelli heldur líka á grundvelli ónógra upplýsinga.

Klípa tvö

Önnur smjörklípa sem þeir félagar klína á mig snýr að því að ég nefni ekki tölur til að styðja mál mitt.  Ég vona að þessi talnaást þeirra tvímenninga hafi verið uppvakin þegar gagnrýnendur Kárahnjúkaverkefnisins báðu um alvöru þjóðhagslegt arðsemismat og að það hafi verið ákvörðun annarra er að undirbúningnum komu að leggjast gegn slíku mati.  Hafi sú verið raunin á ég erfitt með að skilja hitann í málflutningi þeirra á undirbúningsstiginu.  Hvað um það.  Hagfræðistofnun hefur nýlega skilað útreikningum til iðnaðarráðherra um þáttatekjur vegna álframkvæmda á undangengnum árum.  Iðnaðarráðherra hefur birt í þingskjali.  Hæst fer þáttatekjuframlagið í 12% af landsframleiðslu á árinu 2006.  Stór hluti þess er væntanlega vegna framkvæmdanna á Austfjörðum.  Þetta er meira en framlag alls sjávarútvegs til landsframleiðslunnar á sama tíma, jafnvel meira en framlag fjármálastarfsemi til landsframleiðslu þegar mest var.  Þetta er svipað að stærðargráðu og ætlaður samdráttur landsframleiðslu milli áranna 2008 og 2009.  Það má því kannski með sanni segja að heildaráhrifin af framkvæmdinni séu lítil svona þegar litið er til meðaltals nokkurra ára!  En það er eins og að segja manninum sem stendur með annan fótinn ofan í sjóðandi hver og hinn fótinn í djúpum skafli að hann sé í þægilegum heitum potti!  Þá er og til þess að taka að í ríki hagfræðinnar þarf að umgangast tölur með varúð.  „Litlar“ tölur geta haft mikil áhrif.  Þetta gerist ef þessar „litlu“ tölurnar hafa mótandi áhrif á væntingar margra aðila um framtíðarþróun.  Það var nákvæmlega það sem gerðist í sambandi við Kárahnjúkadæmið.  Það urðu margir til þess að benda á það á undirbúningsstiginu að umfang framkvæmdanna myndi ýta upp stýrivöxtum Seðlabankans og í kjölfarið þrýsta upp gengi krónunnar og valda búsifjum hjá stórum hluta útfluningsgreinanna.  Þetta gekk allt eftir, reyndar í meira mæli en nokkurn gat grunað vegna hagstjórnarmistaka sem í kjölfarið sigldu.  Talnameðferð þeirra félaga fellur því illa að nýlegum niðurstöðum í hagfræðirannsóknum.

Klípa þrjú

Síðasta smjörklípan sem ég ætla að gera að umtalsefni snýst um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir nefna þúsundir ófullgerðra íbúða og þrjúþúsund fullgerðra en ónýttra íbúða á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir nefna mikið vannýtt verslunarhúsnæði.  Þetta eru orsakir þenslu og hruns að þeirra mati.  Hvernig mín persóna tengist ákvörðunum um byggingarframkvæmdir á stór Hafnarfjarðarsvæðinu er mér hulin ráðgáta.  Ekki á ég byggingarfyrirtæki.  Ekki sit ég í sveitarstjórn.  Eina sem ég get játað á mig er að hafa skipt um klósett og vask í baðherbergi! Reyndar varaði ég við mögulegum afleiðingum lánveitingakapphlaups Íbúðalánasjóðs og bankanna í grein í Morgunblaðinu í nóvember 2004.  Og ekki veldur sá er varar, eða hvað?  Það er reyndar mikilvægt að átta sig á því að ákvarðanir um byggingu virkjana og samninga við álframleiðendur eru eðlisólíkar ákvörðunum um byggingu íbúða og verslunarhúsnæðis.  Ákvörðun um virkjun er tekin af pólitískum aðilum.  Umræðan um arðsemi Kárahnjúkavirkjun sýndi að kröfur um arðsemi voru settar til hliðar þegar sú ákvörðun var tekin og meira litið til ætlaðra staðbundinna áhrifa og kosningaloforða.  Álframleiðandi semur við Ríkisstjórn Lýðveldisins Íslands um skattgreiðslur og orkuverð.  Leikurinn gengur út á að lækka orkuverðið niður að sársaukamörkum Landsvirkjunar til að tryggja þátttöku hins erlenda aðila.  Pólitíkusarnir sem standa í þeim samningum eiga enda allt undir því að samningar náist.  Það vegur ekki þungt í þeirra metabók að ná góðu verði fyrir raforkuna.  Þessu er ekki svona varið í byggingarbransanum.  Þó pólitísk fyrirgreiðsla sé þar landlæg er það þó svo að byggingaraðilinn tekur megnið af áhættunni sem framkvæmdinni fylgir.  Fái hann ekki kaupanda þarf hann að bera skellinn.  Byggingaraðilinn getur ekki sent samborgurum sínum reikninginn jafn leikandi létt og gerist þegar samið er um lágt orkuverð til álframleiðslu.

Kárahnjúkar og þjóðarhagur

Þeir félagar nefna í grein sinni að álverið framleiði gjaldeyri í gríð og erg og efli þannig þjóðarhag.  Rétt er að hafa í huga í því samhengi að Þjóðhagsstofnun heitin taldi að álverið myndi auka þjóðartekjur varanlega um 0,5 til 1%.  Nú hefur það gerst að í kjölfar efnahagshrunsins hefur lánshæfismat íslenska ríkisins, ríkisbankanna og orkufyrirtækjanna lækkað meira en dæmi eru til um í hinni vestrænu veröld.  Samtímis hefur skuldsetning ríkisins aukist geigvænlega.  Langtímaskuldir Landsvirkjunar nema 3 milljörðum dollara eða um 350 milljörðum íslenskra króna.  Auknar vaxtagreiðslur Landsvirkjunnar einnar vegna lækkunar lánshæfismats gætu gróft reiknað numið 0,5% af þjóðarframleiðslu einhver næstu 10-20 árin.  Sú upphæð ein fer langt með að éta upp meintan varanlegan ávinning af Kárahnjúkadæminu.  Og þá eigum við enn eftir að reikna aukinn vaxtakostnað vegna nýrra og gamalla skulda annarra opinberra og hálfopinberra aðila.  Það þarf ekki mikið útaf að bregða til þess að varanlegur ávinningur af Kárahnjúkavirkjun verði neikvæður.  Því miður.

Lokaorð

Í Aðventu segir Gunnar Gunnarsson frá tilgangslitlu ferðalagi inn á öræfi Austurlands í vetrarveðrum.  Söguhetja Gunnars setti reyndar engan í hættu nema sjálfan sig.  Aðventuferð þeirra Smára og Þorvaldar um öræfin í kringum Snæfell eru öðru marki brennd.  Bæði skilja þeir félagar eftir óafmáanleg spor í landinu og stuðla að hruni efnahagskerfisins í leiðinni.  Fjalla-Bensa tókst hins vegar ekkert að skemma með vosbúðardýrkun sinni.  Færi betur á að nútímapólitíkusar hefðu það lítilæti hugans að leiðarljósi í bautasteinabyggingarbrambolti sínu.

Höfundur er prófessor í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Börn í önnum á aðventu

Að venju er mikið umleikis hjá börnunum á aðventunni. Leik- og grunnskólar, tónlistarskólar og íþróttafélögin eru með ýmsa viðburði tengda aðdraganda jóla á sínum snærum, þar sem börn og unglingar stíga á stokk og sýna færni sína á hinum ýmsu sviðum.

Aðventa

Lesa meira

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.