Yfirlýsing frá fulltrúum Fjarðalista, Framsóknar og Miðflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar vegna sölu Rafveitu Reyðarfjarðar

Þriðjudaginn 17. desember var samþykkt í bæjarstjórn Fjarðabyggðar að selja Rafveitu Reyðarfjarðar. Salan er skiljanlega mjög umdeild. Rafveita Reyðarfjarðar á sér langa og merkilega sögu og var hún byggð upp af Reyðfirðingum af dugnaði, fórnfýsi og metnaði. Þetta var því alls ekki léttvæg ákvörðun.

Okkar mat var hinsvegar að til framtíðar litið væri dreifing og sala rafmagns á Reyðarfirði betur komin í höndum annars opinbers aðila sem sérhæfður væri í slíkum rekstri. Þá yrðu fjármunir sem út úr þessu kæmu nýttir til eflingar innviða á Reyðarfirði. Vegna sölunnar viljum við því koma eftirfarandi á framfæri:

Sala á Rafveitu Reyðarfjarðar á sér langan aðdraganda. Ekkert sveitarfélag rekur lengur rafveitu með þessum hætti og ekki að ástæðulausu. Rafveiturekstur er sérhæfður og sífellt auknar lagalegar kröfur eru gerðar til þeirra sem standa í slíkum rekstri. Ef sveitarfélagið hefði ætlaði sér að reka Rafveituna áfram er ljóst að það hefði kallað á verulegar fjárfestingar, bæði í búnaði og mannauði, sem hefði gert núverandi rekstur þyngri. Um leið hefði sveitarfélagið þurft að taka þá áhættu að slíkar fjárfestingar myndu ekki skila auknum fjárhagslegum afrakstri. Landsvirkjun hefur sagt upp þjónustusamningi um orkukaup sem Rafveitan hefur haft um árabil og því ljóst að Rafveitan þyrfti sjálf að sjá um áætlanir, kaup og endursölu orku, sem er einnig áhættusamur rekstur og hefði kallað á sérhæft starfsfólk. Vegna framangreinds myndi sá litli hagnaður sem er af rekstri Rafveitunnar að öllum líkindum hverfa.

Af þessum sökum taldi öll bæjarstjórnin skynsamlegt að selja Rafveituna frekar en að fara út í þær miklu fjárfestingar og áhættu sem myndi fylgja því að efla reksturinn. Sveitarfélög eiga fyrst og fremst að einbeita sér að lögboðnum verkefnum og uppbyggingu góðrar almennrar þjónustu við íbúa. Slík verkefni verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og starfsfólk sveitarfélaga og sveitarstjórnir þurfa að einbeita sér að fullu að þeim. Það skiptir líka máli að við söluna losnar verulegt fjármagn sem nýtist til að auka lífsgæði íbúa á Reyðarfirði. Það hefur frá upphafi legið fyrir að það fjármagn verður notað í uppbyggingu innviða á Reyðarfirði.

Öll bæjarstjórnin taldi eðlilegt að leita til orkufyrirtækja í opinberri eigu vegna mögulegrar sölu Rafveitunnar. Með því flyttist sú ábyrgð sem sveitarfélagið hefur haft við notendur veitunnar til annars opinbers aðila sem hefði sömu skyldur við íbúa Reyðarfjarðar, gæti nýtt sér stærðarhagkvæmni í innkaupum á orku og hefði getu og mannafla á Austurlandi til að þjónusta dreifikerfi hennar og aðra starfsemi. Því var ákveðið að leita til RARIK og Orkusölunnar um kaup, enda eru það fyrirtæki með umfangsmikla starfsemi á Austurlandi. Þær viðræður fóru fram í trúnaði að ósk samningsaðila meðan verið væri að sjá hvort grundvöllur væri fyrir samningum.

Þótt þessi ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ítarlegrar skoðunar og fyrirliggjandi gagna um rekstrarumhverfi Rafveitu Reyðarfjarðar til framtíðar erum við meðvituð um að ekki eru allir sammála þessari ákvörðun. Öll rök og spurningar sem komið hafa fram skiljum við og virðum. Rafveitu Reyðarfjarðar var komið á fót af íbúum fyrir tæpum níutíu árum af miklum stórhug og fórnfýsi. Hún hefur verið stór þáttur í sögu þess byggðarlags allar götur síðan og eðlilegt að íbúum þar sé ekki sama um þennan gjörning. Fyrir því berum við virðingu og fullvissum fólk að ákvörðun um söluna var tekin eftir ítarlega skoðun á grundvelli bestu gagna og málið metið frá öllum hliðum. Þrátt fyrir glæsta fortíð er það alltaf framtíðin sem við þurfum að horfa til.

Ávallt hefur ríkt samstaða um það í bæjarstjórn Fjarðabyggðar að ef Rafveitan yrði seld yrði það til opinberra aðila og einkavæðing kæmi ekki til greina í neinni mynd. Því kom ekki til greina að skoða samningaumleitanir frá fyrirtækinu Íslenskri orkumiðlun en þær hófust að auki eftir að verðtilboð Orkusölunnar hafði verið gert opinbert í fjölmiðlum. Rétt fyrir fund bæjarstjórnar þann 17. desember sl., þar sem áðurnefndir samningar við RARIK og Orkusöluna voru til umfjöllunar, vildu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn allt í einu skoða þann möguleika að hleypa Íslenskri Orkumiðlun að borðinu og setja þar með samningaviðræður við Rarik og Orkusöluna mögulega í uppnám. Vakti sú skyndilega afstöðubreyting mikla furðu á þessum tímapunkti þar sem um er að ræða fyrirtæki í einkaeigu sem starfar á raforkusölumarkaði. Í sjálfu sér þarf það kannski ekki að koma mikið á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áhuga á einkavæðingu, en það kom hins vegar meirihluta bæjarstjórnar verulega á óvart að sá áhugi skyldi vera nægilega sterkur til að rjúfa samstöðuna sem ríkt hafði um söluna sem unnin hafði verið í samvinnu allrar bæjarstjórnarinnar, eins og eðlilegt er í svo stóru máli. Hvort eignarhald Íslenskrar Orkumiðlunar skipti máli í þessari stefnubreytingu skal ósagt látið en eftir stóð að fulltrúar Sjálftæðisflokksins í bæjarstjórn höfnuðu samningum sem gerðir höfðu verið við RARIK og Orkusöluna og kynntir höfðu verið fyrir íbúum en lögðu engu að síður ekki fram neina aðra tillögu eða bókun í málinu.

Þá teljum við rétt að eftirfarandi komi fram í framhaldi af yfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð sem birt var í fjölmiðlum þann 19. desember sl:

Málefni Rafveitu Reyðarfjarðar hafa um langt skeið verið til skoðunar hjá bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Á síðasta kjörtímabili var KPMG fengið til að yfirfara rekstur sveitarfélagsins og var niðurstaða þeirrar vinnu, sem bæjarfulltrúar komu að, kynnt íbúum á opnum fundum. Þar var meðal annars bent á rekstur Rafveitunnar myndi þyngjast til framtíðar litið og skoða þyrfti hvort rétt væri að selja hana til sérhæfðs aðila í orkurekstri. Á grundvelli þeirrar vinnu byggir núverandi ákvörðun meðal annars. Þá hefur verið lögð áhersla á að ræða þessa ákvörðun á grundvelli allrar bæjarstjórnar en ekki bara meirihluta í þessu ferli og fullur trúnaður ríkt á milli bæjarfulltrúa í því, enda hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkt málsmeðferð á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar allt fram að bæjarstjórnarfundi þann 17. desember sl. Þá snerist þeim hugur á tæpum klukkutíma frá því þeir staðfestu fundargerð bæjarráðsfundar sem haldinn var sama dag, þar sem erindi Íslenskrar Orkumiðlunar var vísað frá, þar til þeir greiddu atkvæði gegn samningunum á bæjarstjórnarfundi á grundvelli þess að nauðsynlegt væri að ræða við það fyrirtæki.

Þá hefur ríkt alger einhugur um það frá byrjun milli fulltrúa allra flokka að verðmæti sölu Rafveitunnar rynni til uppbyggingar innviða á Reyðarfirði. Bæjarstjórn og nefndum sveitarfélagsins höfðu borist erindi og fundað hafði verið með stjórnum Ungmennafélagsins Vals og Íbúasamtaka Reyðarfjarðar, auk þess sem haldinn var íbúafundur, þar sem skýr vilji var til endurbóta og uppbyggingar íþróttahússins. Því þótti eðlilegt að hafa það undir við afgreiðslu sölunnar núna og þurfti engin skilyrði frá Sjálfstæðisflokknum til að sú ákvörðun væri tekin. Ef menn vilja vera í pólitískum klækjaleikjum, líkt og þeir bjóða nú upp á, væri eflaust hægt að velta því fyrir sér hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð hafi ekki með ákvörðun sinni - að greiða atkvæði gegn sölu Rafveitunnar - verið að hafna slíkri uppbyggingu á Reyðarfirði um leið.

En við ætlum ekki að elta frekari ólar við eftiráskýringar þeirra enda miklu brýnni verkefni framundan, þ.e. samtal við íbúa á Reyðarfirði um framhald mála. Því verður boðað til íbúafundar og leitað til Íbúasamtaka Reyðarfjarðar á nýju ári til að ræða forgangsröðun verkefna sem þessu tengjast.

Með bestu kveðjum og óskum um gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar
Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs
Sigurður Ólafsson, bæjarfulltrúi
Pálína Margeirsdóttir, bæjarfulltrúi
Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, bæjarfulltrúi
Einar Már Sigurðarson, bæjarfulltrúi
Rúnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.