Vindmyllur á Úthéraði

Nú hafa borizt þær fréttir að sveitastjórn Múlaþings hafi samþykkt að breyta skipulagi við Lagarfossvirkjun þannig að þar verði til iðnaðarlóð ætluð fyrir vindmyllur. Fyrst verði reist 50 metra há rannsóknarmöstur og ef vel gustar, komi þar tvær vindmyllur sem framleitt geti samtals um 10 megawött.

Lítið hefur farið fyrir kynningu á þessum áformum, hver tilgangurinn er, hver áhrif verði á umhverfi, ásýnd og náttúru eða hver afstaða íbúa á Úthéraði sé til þessara áforma. Mér vitanlega hefur engin grenndarkynning farið fram. Nefnt hefur verið að hæð þessara vindmylla verði um 150 metrar, sem er algeng hæð í dag. Það eru tveir Hallgrímskirkjuturnar. Hæðin á Skerslum, sem er hæsti hnúkur í nágrenninu, er 143 metrar. Myllurnar mun því bera við himinn um allt Úthérað. Menn geta svo hver um sig metið fegurðaraukann sem af þessu hlýzt fyrir umhverfið og íbúana.

Það er sérkennilegt að breyta skipulagi í sveitarfélagi, eingöngu fyrir rannsóknir á ákveðnu verkefni, áður en niðurstöður verkefnisins liggja fyrir. Hvað liggur á? Væri ekki nær að leggja í kostnað við skipulag þegar og ef niðurstöðurnar benda til þess að af verkefninu geti orðið? Þetta vekur grunsemdir um heilindi í málsmeðferð. Nokkurs konar endurtekið túrbínutrix. Það er, að með breytingu á skipulagi fyrirfram og heimild til reisingar rannsóknarmasturs verði áframhaldandi framkvæmdir og stækkun síðar meir réttlætt með að „skaðinn“ sé jú þegar skeður.

Nær væri að sveitarstjórn legðist yfir það, hvort þörf sé fyrir svona loftskylmingar, þá í samráði við íbúana og að því gefnu að ekki stafi af henni mengun. Ef vilji þeirra stendur til svona orkuöflunar, þá fyrst er hægt að leita uppi þá staði sem bezt þykja henta. Mér skilst að engin slík áætlun sé til hjá Múlaþingi.

Það hefur komið í ljós á síðustu árum, að vindmyllur eru ekki sú tæra orka sem af er látið. Auk hávaðamengunar og fugladráps þá hefur komið í ljós, að örplastmengun berst frá spöðum myllanna í verulegum mæli og dreifist skiljanlega með orkugjafanum, vindinum allvíða um nágrennið. Spaðar myllu, sem er með 130 metra þvermál, skila um 62 kg örplasts á ári út í umhverfið. Þetta eru trefjaplastagnir sem kvarnast úr brúnum spaðanna undan regni, snjó og aðskotahlutum. Í trefjaplasti er efnið PBA (Bisfnól A), þrávirkt eiturefni sem eyðist ekki heldur safnast upp í náttúrunni, þar með í dýrum og mönnum. Tvær þannig myllur dreifa því nærri 2,5 tonnum af örplasti á tuttugu árum. Þetta efni hefur verið notað í plastiðnaði í tugi ára (allt frá 1957) en vaxandi grunsemdir um skaðræði þess hafa valdið því, að það er nú bannað víða.

Á Úthéraði lifa menn af landbúnaði og ferðaþjónustu. Næsta gisting við vindmylluturnana er í aðeins 700 metra fjarlægð. Nærri má geta hvernig henni reiðir af. Aðdráttarafl stórs landssvæðis fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda mun skaðast. Turnarnir munu alltaf blasa við og guð má vita hversu langt hávaðinn berst.

Ef við þetta bætist uppsöfnuð og óafturkræf plastmengun í lífkeðjunni um hálft Fljótsdalshérað, sem mengar jarðveg, fólk og fé, tekur ekki marga áratugi að gera líka útaf við landbúnaðinn á svæðinu.

Væri ekki ráð fyrir sveitarstjórn að hugsa betur sinn gang? Og huga meira að því hvernig sem bezt skilyrði verði til heilbrigðs lífs fyrir íbúana, bæði á Úthéraði sem annars staðar. Til þess hefur hún væntanlega verið kosin.

Geirastöðum, 12. nóvember 2021

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.