Vilhjálmur Einarsson: Minningarorð frá Rótarýklúbbi Héraðsbúa

Heiðursfélagi okkar er fallinn frá. Blessuð sé minning þess merka manns sem er fyrsti verðlaunahafi okkar Íslendinga á Ólympíuleikum, á sæti í Heiðurshöll ÍSÍ og er handhafi Íslensku Fálkaorðunnar.

Vilhjálmur gekk fyrst í Rótarýklúbb Borgarness árið 1960 og var félagi þar allt fram til 1979 er hann gekk í Rótarýklúbb Héraðsbúa. Hjá Rótarýklúbbi Héraðsbúa hefur hann tvívegis gengt embætti forseta árin 1987-1988 og 2006-2007. Frá árinu 2009 hefur hann verið heiðursfélagi klúbbsins.

Hann var einstaklega duglegur að miðla reynslu sinni og minningum; frá uppvaxtarárum sínum á Héraði þegar byggðarkjarninn á Egilsstöðum var að myndast og ný atvinnutækifæri að bjóðast, frá frumstæðum aðbúnaði við íþróttaæfingar, ævintýralegum keppnisferðalögum og samskiptum við íþróttahreyfinguna, sendiráðin víða um heima og samferðafólk þess tíma innan frjálsra íþrótta.

Einnig um fræðslu- og æskulýðsmál, s.s. frá árunum á Laugarvatni, á Bifröst, skólastjóraárunum í Héraðsskólanum í Reykholti og frá stofnun Menntaskólans á Egilsstöðum er hann var ráðinn til sem fyrsti skólameistari skólans og gegndi því til ársins 2001. Áhugi á íþrótta- og uppeldismálum leyndi sér ekki né áhugi á samfélags- og félagsmálum almennt.

Við kveðjum góðan rótarýfélaga með virktum og þökk fyrir góða og gefandi samveru. Við færum eftirlifandi eiginkonu hans Gerði Unndórsdóttur og sex sonum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning Vilhjálms Einarssonar mun lifa meðal þjóðar.

Ásdís Helga Bjarnadóttir
Forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.